Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bændur í Skagafirði fá sálrænan stuðning

30.11.2020 - 08:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, og fulltrúar sveitarfélaga í Skagafirði hafa undirritað samkomulag við Kristínu Lindu Jónsdóttur sálfræðing um að veita sauðfjárbændum sálrænan stuðning og ráðgjöf vegna riðuveiki í Skagafirði.

Heimilisfólki á þeim búum þar sem riðuveiki hefur greinst stendur til boða sálfræðiþjónusta Kristínar Lindu þegar aðstæður leyfa, eða í gegnum fjarfundarbúnað. Hún er klínískur sálfræðingur og rekur eigin sálfræðistofu, Huglind ehf.

Bændur hafa þar að auki fengð sent fræðslu- og leiðbeiningarefni um áhrif af ytri áföllum á líðan fólks og hagnýt ráð sem hafa reynst vel þegar erfiðleikar og áföll ganga yfir. Þar er sérstaklega fjallað um viðbrögð við riðuveiki í sauðfé og leiðum til að veita börnum og ungmennum ráðgjöf við slíkar aðstæður. Þá verður Kristín Linda með erindi á opnum upplýsingafundi á næstunni.