Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Áfram margt bannað en við megum föndra „jólakúlur”

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Íslendingar eru hvattir til þess að búa sér til sínar eigin „jólakúlur” yfir hátíðarnar, sem er heiti almannavarna yfir þá þröngu hópa sem fólk má hitta á aðventunni. Þetta er í takti við það sem tíðkast víða erlendis, eins og í Danmörku og á Bretlandi. Ekki er hægt að búast við miklum tilslökunum á sóttvörnum á næstunni, samkvæmt sóttvarnarlækni. Þó er ekki verið að segja fólki að sitja inni og hitta engan, því það væri „lockdown”, sagði hann á upplýsingafundi nú fyrir hádegi.

Vill framlengja strangar reglur

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hefur skilað nýjum tillögum til heilbrigðisráðherra varðandi framhald sóttvarnaraðgerða í landinu. Hann sagði á upplýsingafundi almannavarna í morgun að tillögur hans væru í skoðun í ráðuneytinu og býst hann við nýrri reglugerð frá ráðherra í dag eða á morgun. Núgildandi aðgerðir, sem fela meðal annars í sér 10 manna samkomubann, lokanir skemmtistaða, sundlauga og líkamsræktarstöðva, gilda eins og er til 2. desember. Faraldurinn er, eins og er, í línulegum vexti. Erfitt er að túlka orð Þórólfs á annan hátt en svo að hann vilji framlengja aðgerðirnar til að fá ekki enn meira bakslag í faraldurinn:

„Það er ekki mikið rými til almennra tilslakana.”

Þórólfur vildi ekki svara spurningu fréttamanns varðandi nákvæmar dagsetningar í tillögum sínum og vísaði til þess að þetta væri í höndum ráðherra. Það gæti hins vegar komið til greina að hafa harðari aðgerðir á tilteknum svæðum yfir hátíðarnar - sem væri þá að öllum líkindum bundið við höfuðborgarsvæðið þar sem langflest smitin eru að greinast þar. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Jólaboð, jólatónleikar, jólaböll og almenn jólahópamyndun verður að vera af mjög skorum skammti þetta árið.

Hver og einn ber ábyrgð á sinni jólakúlu

Nú eru komnar leiðbeiningar inn á Covid.is varðandi æskilega hegðun landsmanna yfir hátíðarnar og er það skilgreint sem „jólakúlan”. Það þýðir með öðrum orðum að fólk á að skilgreina ákveðinn fámennan hóp sem það hittir í kring um hátíðarnar. Þetta er í takt við það sem sóttvarnaryfirvöld í öðrum löndum, eins og í Danmörku og á Bretlandi, hafa sagt til sinna þjóða. Hver og einn ber þá ábyrgð á sinni jólakúlu.

Engar nýjar fregnir eru af bóluefni, en Þórólfur sagðist ekki vita hvenær fyrsta sendingin berst til Íslands. „Það er mikill undirbúningur sem þarf að eiga sér stað áður en það gerist,” sagði hann. 

Gestagangur hjá Víði smitaði út frá sér

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn greindist smitaður fyrir viku síðan og er í einangrun. Nokkur gagnrýni hefur komið fram varðandi það, sérstaklega eftir að Víðir greindi frá því á Facebook að töluverður gestagangur hafi verið á heimili hans undanfarið, sem leiddi til þess að fólk smitaðist út frá honum og eiginkonu hans. Þórólfur var spurður út í þetta á fundinum og sagði í stuttu máli að allir væru mannlegir þó að enginn væri hafinn yfir gagnrýni. 

Svo virðist sem fólk sé ekki að fara eftir þessum grunnreglum, sagði Þórólfur. Átta greindust með veiruna í gær og voru einungis þrír í sóttkví. Alla jafna greinast töluvert færri um helgar en á virkum dögum, svo erfitt er að túlka tölurnar í stóru samhengi. Enginn nýr stofn hefur greinst undanfarið. Þrír stofnar veirunnar hafa verið að greinast í þessari bylgju og enn sem komið er hefur enginn nýr komist inn í landið svo vitað sé. 

„Allir eru hvattir til að lágmarka alla hópamyndun. Það er tíu manna samkomubann, það er tveggja metra regla, grímunotkun og handhreinsun,” sagði Þórólfur.

„Við erum ekki að hvetja alla til að sitja inni og hitta engan. Það væri lockdown.”