Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Yfir 150.000 enn heimilislaus eftir óveður í Hondúras

29.11.2020 - 01:49
epaselect epa08842299 A woman rests after returning to her home to remove the debris due to the floods left by Iota in the town of La Lima, department of Cortes, Honduras, 25 November 2020. The northern region of Honduras continues to clean mountains of mud and all kinds of garbage, and the reactivation of the productive work, eight days after tropical storm Iota passed the country, leaving dozens of deaths and damages to the infrastructure still not quantified.  EPA-EFE/Jose Valle
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfir 150.000 manns eru enn heimilislaus í Hondúras eftir að tveir öflugir fellibyljir fóru þar yfir fyrr í þessum mánuði. Fjórða stigs fellibylurinn Eta skall á Mið-Ameríkuríkjunum Hondúras og Níkaragva 3. nóvember og skildi eftir sig slóð eyðileggingar. Iota, annar og enn öflugri fellibylur, dundi svo á löndunum tveimur innan við hálfum mánuði síðar.

Báðir stormarnir báru með sér úrhellisrigningar, sem ollu mannskæðum aurskriðum, skyndiflóðum og gríðarmiklu tjóni á mannvirkjum á hamfarasvæðinu. Yfir 200 manns fórust í hamförunum, þar af 94 í Hondúras, samkvæmt opinberum tölum. Stjórnvöld þar í landi áætla að yfir 150.000 manns séu enn heimilislaus og meira og minna á vergangi eftir þessi gjörningaveður og búi við sára fátækt.

Margföld neyð meira en innviðir Hondúras ráða við

Neyðarskýli eru yfirfull og heilu stórfjölskyldurnar hírast í hrófatildrum sem hróflað hefur verið upp hvar sem því verður við komið, jafnvel í vegköntum. Aðgengi að hreinlætisaðstöðu, mat og læknishjálp er lítið sem ekkert og heilsu fólks fer hrakandi. Kórónaveirufaraldurinn gerir illt verra og BBC hefur eftir heilbrigðisyfirvöldum í Cortes-héraði, sem varð afar illa úti í óveðrunum, að brögð séu að því að fólk neiti að láta skima sig fyrir COVID-19 af ótta við að verða hrakið  úr neyðarskýlum.

Yfir 300 vegir í Hondúras skemmdust verulega í hamförunum, 48 brýr eyðilögðust og 32 til viðbótar skemmdust. Þá er ótalinn sá fjöldi bygginga, rafmagns- og fjarskiptamastra og annarra mannvirkja sem skemmdust og eyðilögðust.

Hreinsunar- og uppbyggingarstörfin eftir fellibyljina, ásamt álaginu sem fylgir kórónaveirufaraldrinum, hafa reynst meiri og kostnaðarsamari en innviðir og efnahagur Hondúras ræður við með góðu móti. Það gæti því orðið talsverð bið á því að fólkið sem missti heimili sín í hamförunum sjái fyrir endann á harðindunum.