Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Verðum að fara að tala út frá fólki, ekki fjármagni“

Sonja Ýr Þorbergsdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Leggja þyrfti meiri áherslu á sértækar aðgerðir ríkisstjórnarinnar fremur en almennar til að sporna við áhrifum kórónuveirufaraldursins. Skort hefur á greiningu á áhrifum aðgerða áður en þær hafa verið lagðar fram.  Þetta segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB. Hún segir að opinbera kerfið hafi verið fjársvelt frá hruni, nú sé tækifæri til að styrkja það.

Sonja var gestur Silfursins í morgun. 

„Fjölbreytileikinn í þessum úrræðum er kominn á þann stað að þau ættu að grípa sem flesta. Nú síðast var verið að kynna viðspyrnustyrki án þess að það hafi farið fram greining,“ sagði Sonja.

„Í þessari umræðu um jöfnuð sem við erum að reyna að tryggja í hvernig við eigum að komast út úr kófinu er erfitt að sjá hvort verið sé að nýta fjármunina með markvissum hætti þannig að þeir fari til þeirra sem þurfa raunverulega á þeim að halda. Við höfum frekar lagt áherslu á að aðgerðir séu sértækar, frekar en almennar.“

Sem dæmi um þetta nefndi Sonja lækkun tryggingagjalds. Staða atvinnugreina og fyrirtækja væri mjög mismunandi, ekki hefðu öll fyrirtæki þörf fyrir þessa lækkun núna. Kortleggja hefði þurft stöðuna áður en þetta var ákveðið.

„Það er mjög mismunandi staða í atvinnugreinunum núna og það er miður að það hafi ekki farið fram betri kortlagning á því til þess að byggja undir ákvarðanatöku til framtíðar. Við vitum að mörgum gengur mjög vel og öðrum gengur illa. Og þá þarf að grípa utan um það sérstaklega,“ sagði Sonja.

Sonja sagði að opinbera kerfið hefði verið fjársvelt frá hruni. Núna væri tækifæri til að styrkja það. „Veiran hefur varpað ljósi á mikilvægi þessara grunnstoða til þess að stuðla að jöfnuði. Við verðum að fara að tala út frá fólki en ekki fjármagni. Fyrir mér eru sértækar aðgerðir eina leiðin til þess og það þarf að ganga lengra í að styðja við fólk.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir