Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tvö eða færri smit í fjórum landshlutum

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítalinn
Í fjórum af átta landshlutum eru nú tvö eða færri kórónuveirusmit. Enginn er í sóttkví á Norðurlandi vestra og einn á Austurlandi. Flestir þeirra sem nú eru með virkt smit eru á sextugsaldri. 

Þetta kemur fram á covid.is.  

Enginn er í einangrun á Austurlandi og Norðurlandi vestra, einn á Vestfjörðum og tveir á Vesturlandi. 161 smit er virkt á höfuðborgarsvæðinu, tíu á Norðurlandi eystra og sex á Suðurnesjum og á Suðurlandi.

Fólk á aldrinum 50-59 ára er fjölmennasti aldurshópurinn í einangrun, það á við um 42 á þessum aldri, á aldrinum 30-39 ára er 41 í einangrun og  23 börn yngri en 18 ára.

Í spálíkani Háskóla Íslands um þróun kórónuveirufaraldursins sem kom út fyrir helgi segir að nýgengi faraldursins sé í miklum vexti víða. Fara þurfi varlega næstu þrjár vikur til þess að vikan í kringum jól verði ekki undirlögð af samfélagssmitum.

Núverandi sóttvarnareglugerð gildir til og með þriðjudeginum 1. desember.  Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að hann hafi ekki skilað heilbrigðisráðherra nýju minnisblaði með tillögum að breyttum sóttvarnaráðstöfunum. Í gær greindust  tíu kórónuveirusmit, en í fyrradag voru þau 21. Þórólfur segir að ekki sé hægt að draga þá ályktun að faraldurinn sé í rénun, færri sýni hafi verið tekin í gær og það geti skýrt að færri greindust.

„Það er sama hlutfall í raun og veru á þessum einkennasýnum sem eru jákvæð, það er að segja rúmlega tvö prósent. Þetta var komið undir eitt prósent. Þetta segir að við erum á þessum viðkvæma tíma og erum að sjá sveiflur og breytingar milli daga. Þannig að það ber að varast að túlka þessar einstöku tölur frá hverjum degi of sterkt,“ segir Þórólfur.