Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Spennandi saga ofin úr heimspekilegum vangaveltum

Mynd: Forlagið / Forlagið

Spennandi saga ofin úr heimspekilegum vangaveltum

29.11.2020 - 13:54

Höfundar

Halldóri Armand Ásgeirssyni tekst að skapa spennu og væntingar í skáldsögunni Bróðir, segir Gauti Kristmannsson gagnrýnandi. „En fyrst og fremst spurningar, nánast eins og í spennusögu sem við viljum vita hvernig fer, en frásagnareyðurnar, -tafirnar og spurningarnar halda lesendum þétt við efnið.“

Gauti Kristmannsson skrifar:

Bók með titilinn Bróðir vekur strax hugrenningatengsl áður en lesturinn hefst. Spurninguna „á ég að gæta bróður míns“ þekkjum við velflest og það kemur jú í ljós að hún á við að einhverju leyti við nema hvað spurningin gæti verið: „Á ég að gæta systur minnar?“ eða „Á systir mín að gæta mín?“ Þetta eru óorðaðar spurningar í sögunni sem þó er full af spurningum, retorískum og innilegum um tilgang lífsins og lyginnar, eða öllu heldur lífslyginnar. En textatengslin ná víðar, þeim satt að segja ægir saman í bókinni, við getum þóst heyra í Shakespeare, Halldóri Laxness, Íslendinga sögum, nánar Fóstbræðra sögu, og auðvitað meira í Biblíunni, hér er komin veisla fyrir bókmenntafræðinga og lesendur reyndar líka, bók sem tekst á við stórar spurningar tilverunnar og reynir ekki að svara þeim með neinu nema skáldskapnum, þessari eftirlíkingu sem segir allan sinn sannleika með lygi.

Sagan er í fimm hlutum með nokkrum frásagnarfræðilegum sjónarhornum. Þau eru dálítið óræð, hún hefst á þriðju persónu frásögn, nokkurs konar prologusi, skiptir yfir í fyrstu persónu þegar sagan hefst í fyrsta hluta af fimm og heldur því að einhverju leyti, en alls ekki alveg, því sjónarhornið nær langt út fyrir hina fyrstu persónu og inn í heila og tilfinningalíf aðalpersónunnar, Skarphéðins Skorra, sem ekki er sögumaður en hefur samt sagt söguna sem er líka skálduð en einhvern veginn algjörlega sönn. Í lokin tekur svo fyrsta persónan alveg yfir og óvænt endalokin blasa við; þau splundra frásagnarrammanum þannig að við verðum að velta fyrir okkur hvort þessi, á margan hátt raunsæislega frásögn, er einhvers konar uppgjör eða að miklu leyti heimspekilegur og á stundum súrrealískur tilbúningur eða draumur.

Þetta lætur flókið í eyrum og er það auðvitað en frásagnardriftin bætir það upp, skapar spennu, væntingar, en fyrst og fremst spurningar, nánast eins og í spennusögu sem við viljum vita hvernig fer en frásagnareyðurnar, -tafirnar og spurningarnar halda lesendum þétt við efnið, mér að minnsta kosti, og það truflar alls ekki að inn í allt er spunnið heimspekilegum, tilvistarlegum pælingum, staðhæfingum og já, aftur spurningum um til hvers lífið er, ekki síst ef það hefur tekið ranga beygju einhvers staðar á leiðinni, með örlagaríkum afleiðingum. Lokaspurningin er svo hin kristna spurning um hvort unnt sé að öðlast endurlausn fyrir syndir sínar og brot. Lesandinn verður sjálfur að skera úr um það í lokin og fær sína friðþægingu þar eftir þessa áhugaverðu glímu við svo margt sem við þyrftum að hugsa meira um á hverjum degi.

Sagan er vitaskuld um systkini, Skarphéðin Skorra og Hrafnhildi Tinnu, börn meltingarfæralæknisins Alfreðs og konu hans Ragnheiðar, sem er látin þegar sagan á sér stað, aðeins örlar á henni lifandi í nokkrum minningum. Stjúpmóðirin Sigríður er almennilegasta kona og þau búa í góðu efri millistéttarstandi eins og við sjáum í góðum tímaritum um húsbúnað og annað slíkt, eða það ímynda ég mér án þess að muna sérstaklega eftir lýsingum á umhverfi fjölskyldunnar. En Adam var ekki lengi í Paradís eins og sagt er og það á eiginlega oftar en einu sinni við, ævinlega þegar sögupersónurnar telja sig hafa fundið einhvern frið kemur einhver skellur og hann á oftast uppruna sinn innra með þeim og gerðum þeirra eða fjölskyldumeðlima. Örlítil undantekning er hrunið 2008 sem fær kaflaheitið „útúrdúr“ og er afgreitt í snatri, enda reddaðist allt hjá þessu ágæta fólki þótt það hafi fengið smáskell fyrst. Sem sagt mjög normalt millistéttarlíf á Íslandi á fyrstu áratugum 21. aldar.

Þó gerast nokkrir atburðir sem fara vel út fyrir normið, eins og kannski alltaf, ég veit það ekki, en þeim er haldið leyndum eða hafa miklar afleiðingar, einn þeirra er sjálft leyndarmál sögunnar, í raun deiluefnið sjálft í aristótelískri frásagnarlist, þótt það komi ekki ljós fyrr en um miðja söguna. Hinn er afleiðing þess þegar Skarphéðinn Skorri ræðst á kærasta systur sinnar, kærasta sem er flugumaður lögreglunnar í aktífistahópi í Berlín sem hún er í slagtogi við. Það er annað deiluefni sögunnar sem þó tengist hinu fyrra beinlínis og afleiðingar þess leiða söguna til lykta sem verða að teljast óvæntar eins og áður sagði.

Af framansögðu mætti ætla að nánast sé um spennusögu að ræða, og eitthvað er til í því, en það er miklu meira í þessari bókmenntablöndu en aristótelísk frásögn um átök sem leiða til uppgjörs og harmræns eða hamingjusams endis. Inn í textann er blandað bundnu máli á stundum, sjeikspírsku jafnvel og það er engin tilviljun, höfundur fer ekkert í felur með það, það er eins og hann vilji nálgast hina gömlu hugmynd um hið háleita með þessu, enda stinga þessir kaflar upp kolli á dramatískum augnablikum, ekki síst þegar söguhetjan Skorri fer í langa eyðimerkurgöngu sína til Þingvalla í sínum dýpsta harmi þar sem hann hittir stórfenglegt dýr eins og Bjartur gerði á heiðinni og lendir í lífsháska eins Þorgeir Hávarsson og hittir fyrir draug móður sinnar eins og Hamlet, draug sem spáir ekki vel, eða hvað?

Erindi bókarinnar, eða kannski málningin á striganum í verkinu, er þó líkast til fyrst og fremst heimspekilegt, sögupersónurnar, einkum Skorri, en systir hans þó ekki síður þótt við áttum okkur ekki á því strax, þurfa að takast á við grundvallarspurningar á borð við: „Hver erum við?“ eins og fimmti og síðasti hluti bókarinnar er kallaður. Spurningin stóra kallast á við mörg önnur lítil frásagnaratriði, þessi stykki í púslinu sem eru óræð eins og himinn, en nauðsynleg til að fylla upp í myndina. Við lítum inn í fátæklegt líf innflytjenda sem vinna með söguhetjunni á yngri árum, brosum að óborganlegri senu þar sem verið er að stela sjúkrarúmi af Landspítalanum fyrir lamaðan mann í Kópavogi, fjölskyldan verður vitni að brottflutningi hælisleitanda á leið í sumarleyfi, þetta og margt fleira fyllir upp í frásagnarmósaíkina og lætur okkur lesendur spyrja áfram, hver eru þau?, og við vitum vel að við horfum í spegil.

Það er vissulega klisja að halda því fram bókmenntir haldi uppi spegli fyrir samtíma sinn og samfélag, og þær gera það áreiðanlega stundum, en spegilmyndin er næstum jafnoft á yfirborðinu, hún birtir sjaldan myndina af Dorian Gray, þó það glitti í hana er alltaf eitthvað sem flækist fyrir og í þessari bók er kannski áleitnasta spurningin um ástina, ástina sem ofbeldi eins og einhvers staðar er komist að orði. Er ástin ekki gjöf heldur yfirtaka, yfirgangur, valdboð í nafni gæsku? Þeirrar truflandi spurningar er spurt með því að gægjast undir yfirborð vísitölufjölskyldu í Reykjavík nú á dögum og kannski gæti svarið við henni verið skýring á mörgum vandamálum hinna velmegandi. En ef svo er, hvað þá?