Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir Víði hafa farið að eigin tilmælum

29.11.2020 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Víðir Reynisson er á fimmta degi COVID-19 veikinda. Hann birti í gær langa færslu á Facebook þar sem hann segir að þau hjónin hafi þrengt verulega þann hóp sem þau umgangist til að lágmarka áhættu - en hafi þrátt fyrir það smitast og rekur svo ferðir þeirra dagana fyrir greiningu. 

12 voru útsettir fyrir smiti

Kona Víði veiktist, fór í sýnatöku og reyndist smituð. Helgina áður gisti vinafólk þeirra utan af landi hjá þeim og dætur þeirra kíktu í kaffi. Einnig vinkona þeirra hjóna, börn, tengdadóttir og barnabarn og vinahjón komu í heimsókn síðar það sama kvöld. 

Allt í allt komu því yfir tíu manns í heimsókn til Víðis. Tólf voru á endanum útsettir fyrir smiti og fóru allir í sóttkví. Fimm úr þeim hópi hafa greinst með veiruna. 

Víðir segir þó að þau hafi reynt að forðast sameiginlega snertifleti og passað hafi verið upp á fjarlægðir  en sennileg smitleið sé vatnskanna, kaffibollar og glas. 

Víðir „hlýðir Víði“

Í færslunni á Facebook segir Víðir þungbært að staðan sé þessi því hann hafi verið verið manna duglegastur við að hvetja alla til að passa eigin sóttvarnir. Í fyrstu bylgju faraldursins fór mikið fyrir slagorðinu „Ég hlýði Víði“ sem hvatti fólk til samstöðu. Batakveðjum rignir inn undir færslu Víðis á samfélagsmiðlum en margir hafa einnig furðað sig á fjölda gesta á heimili hans - og spurt hvort Víðir þurfi ekki að hlýða eigin tilmælum. 

Rögnvaldur Ólafsson, leysir Víði af í teymi almannavarna. „Ég held að hann hafi ekki verið að brjóta neinar reglur, af því sem er í gildi, ég held að það sé alveg ljóst og ég get ekki ímyndað mér annað en að hann sé ekki glaður með þessa niðurstöðu. “

Líklegt sé að margir geti mátað sig við stöðu Víðis. „Við höfum náttúrulega biðlað til fólks að hafa þetta í lágmarki, sannarlega, og það er svolítið erfitt að leggja dóm á það hvað er mikið og hvað er lítið og það þarf að setja allt í samhengi. Ég get ímyndað mér að margir geti mátað sig við þessa stöðu þegar þau fara að skoða hvað þau hafa hitt marga og þetta er bara hættan. Þetta er það sem getur gerst.“

Eðlilegt að gestagangurinn komi á óvart

Á samfélagsmiðlum segjast einhverjir varla hafa hitt börn sín, beðið með alla vinahittinga og haldið sig að mestu heima, því skjóti skökku við að fulltrúi almannavarna geri ekki slíkt hið sama. Rögnvaldur segir eðlilegt að þetta komi fólki á óvart.

„Algjörlega, en við erum náttúrulega öll mannleg og mér finnst Víðir gera bara mjög vel grein fyrir þessu í þessum Facebook pistli. Það er alveg sama hversu varlega maður fer, sumt er bara ekki í manns eigin höndum. Mín fjölskylda lenti í þessu líka að veikjast þó að við værum að fara gríðarlega varlega. Þetta er bara lúmsk veira og erfið.“

Víðir hafi farið gætilega, líkt og allir aðrir í teymi almannavarna.  

„Hann náttúrulega hefur farið mjög varlega veit ég, síðustu mánuði, en fólk þarf alltaf að vega og meta hverja það tekur inn í sína búbblu. Þetta er bara dæmi um það hvað getur gerst - ef að einhver veikist þá erum við að taka fullt af fólki með okkur. Það vill náttúrulega enginn lenda í þesari stöðu og sérstaklega ekki í okkar búbblu, við þarna sem erum að vinna í almannavörnum, því það getur haft svo miklar afleiðingar að taka út allt fólkið sem er að vinna í þessu allan daginn þannig að ég held að við finnum öll til ábyrgðar og erum að reyna að fara eins varlega og við mögulega getum.“