Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nígerískir vígamenn skáru yfir 40 verkamenn á háls

29.11.2020 - 02:54
epa04653431 A photograph made available 08 March 2015 shows the Nigerian army patroling in Chibok, Borno State, North Eastern Nigeria 05 March 2015.  According to reports two busy markets and a bus station wre the targets of an alleged Boko Haram suicide
Nígerískir hermenn í leit að vígamönnum Boko Haram samtakanna. Mynd: EPA
Óþekktir vígamenn myrtu í dag yfir fjörutíu landbúnaðarverkamenn, sem voru að störfum á hrísgrjónaökrum í Borno-héraði norðaustanverðri Nígeríu, samkvæmt yfirvöldum og fjölmiðlum í héraðinu. Morðin voru með hrottalegasta móti. Haft er eftir sjónarvottum að árásarmennirnir hafi bundið mennina og skorið þá á háls í þorpinu Koshobe, nærri héraðshöfuðborginni Maiduguri.

43 lík fundust á vettvangi og sex til viðbótar voru flutt á sjúkrahús alvarlega særð, samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar. Leit er hafin að árásarmönnunum en hún hefur ekki borið árangur enn. Þótt ekki sé vitað með vissu hverjir voru að verki berast öll bönd að Boko Haram, hryðjuverkasveitum íslamista sem lengi hafa herjað á héraðið og myrt þar þúsundir manna í illvirkjum sínum síðustu ár.