
Mæla gegn því að Þjóðhagsstofnun færi þjóðhagsreikninga
Þetta kemur fram í umsögn Seðlabankans við frumvarp þingmanna Samfylkingarinnar um Þjóðhagsstofnun. Fyrsti flutningsmaður þess er Oddný G. Harðardóttir fyrrverandi fjármálaráðherra. Á árunum 1974-2002 var starfrækt Þjóðhagsstofnun sem heyrði þá undir forsætisráðuneytið. Árið 2010 var þingsályktunartillaga samþykkt einróma á Alþingi um að koma henni aftur á fót.
Þetta er í fjórða sinn sem frumvarpið er lagt fram og þar er lagt til að stofnunin heyri undir Alþingi og verði komið á stofn á næsta ári. Hún eigi að fylgjast með afkomu þjóðarbúsins, vinna að hagrannsóknum og vera ríkisstjórn og Alþingi til ráðuneytis í efnahagsmálum.
Í umsögn Seðlabankans segir að sjálfstæði og trúverðugleiki nýrrar stofnunar yrði minni en Hagstofan nýtur nú og að auki myndi veruleg samlegð glatast. Flestum þeirra verkefna sem nýrri stofnun er ætlað að sinna sé þegar sinnt af Hagstofunni og Seðlabankanum. Hætt sé við óskilvirkni og ósamræmi á milli hagtalna um efnahagsmál verði söfnun þeirra og úrvinnsla á hendi þriggja stofnana í stað tveggja eins og nú er.
Engin rök séu færð fyrir því í frumvarpinu að þeim yrði betur sinnt af nýrri stofnun.