Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ljóst að helgihald verður með öðru sniði í ár

29.11.2020 - 12:54
Hallgrímskirkja í COVID
 Mynd: Kristinn Magnússon - Ljósmynd
Í dag er fyrsti sunnudagur í aðventu og fer helgihald fram með breyttu sniði í ár vegna faraldursins eins og svo margt annað. Kirkjur landsins hafa verið óvenju dauflegar í morgun.

Alla jafna hefðu kirkjubekkir Hallgrímskirkju verið þéttsetnir í messu á fyrsta sunnudegi í aðventu. En vegna faraldursins var messan tekin upp fyrirfram og henni útvarpað.

Kirkjan var þó opin og nokkrir mættu með síma sína og heyrnartól til að hlýða á messuhaldið í kirkjunni. 

Séra Irma Sjöfn Óskarsdóttir, prestur í Hallgrímskirkju, segir ljóst að helgihald yfir hátíðarnar verði með öðrum brag en verið hefur. „Við vitum svo sem ekkert ennþá hvernig það verður. Menn eru farnir að undirbúa sig og komnar góðar hugmyndir; vera fyrir utan kirkjuna, hlusta á klukkurnar og kórana syngja. En þetta verður frábrugðið og við eigum ekkert endilega von á að það verði ekkert í kirkjunum sjálfum á jóladögunum.“

Irma Sjöfn segir að það verði erfitt fyrir marga að komast ekki í hefðbundar messur yfir aðventuna. „Náttúrulega erfitt fyrir fólk þar sem þetta hefur verið mikill partur af því að halda jólin að fara í kirkju. Syngja Heims um ból og fá að tárast yfir jólunum og lífinu. En því miður - þá búumst við við því að þannig verði það,“ segir hún.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir