Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ljós Óslóartrésins tendruð í kórónuveirufaraldri

29.11.2020 - 19:50
Mynd: RÚV / Skjáskot
Ljós Óslóartrésins voru tendruð á Austurvelli í dag við talsvert frábrugðnar aðstæður en verið hefur allar götur síðan árið 1951 þegar Norðmenn færðu Íslendingum fyrst jólatré að gjöf. Þar hafa að öllu jöfnu mörg hundruð manns verið viðstaddir athöfnina, en vegna samkomutakmarkana var þar engin formleg dagskrá.

Hákon Örn Steen Bjarnason tendraði ljósin á trénu og naut til þess fulltingis Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Dagur sagði að talsvert meira hefði verið skreytt í borginni nú en áður. „Við höfum brugðist við ástandinu og stöðunni með því að hafa sérstaklega jólaleg jól,“ sagði borgarstjóri og hvatti borgarbúa til að fara að þessu fordæmi.

Hann sagði jólatréð talsvert meira skreytt í ár; það væri meðal annars prýtt fjórum sinnum fleiri perum en fyrr, auk 50 borða þar sem þrettán þeirra tákna jólasveinana. Þá er jólatréð prýtt óróa með Bjúgnakræki sem seldur er til styrktar Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV