Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kínverjar reyna að sverja af sér kórónaveiruna

29.11.2020 - 23:56
Mynd með færslu
 Mynd: EBU - RÚV
Kínversk yfirvöld vinna nú að því hörðum höndum að reyna að breyta sögu COVID-19 farsóttarinnar og kórónaveirunnar sem veldur henni, af kínverskum ríkisfjölmiðlum að dæma. Í þeim birtast nú æ fleiri umfjallanir, þar sem dregið er í efa að SARS-CoV-2 veiran sé í raun upprunnin í kínversku borginni Wuhan, þar sem hún greindist fyrst í mönnum um þetta leyti í fyrra.

Áróðursherferð í gangi

Ríkisfjölmiðlarnir hafa fjallað mikið um það að undanförnu, að kórónaveiran hafi greinst á umbúðum innfluttrar, frosinnar matvöru, og einnig um rannsóknir sem beinast að mögulegum COVID-19 tilfellum utan Kína, áður en fyrsta tilfellið greindist í Wuhan.

Matvælapakkningar hafa til þessa hvergi verið taldar líkleg smituppspretta, hvort sem matvælin eru frosin eða ófrosin. Í síðustu viku var því haldið fram á Facebooksíðu Dagblaðs Alþýðunnar að „öll fyrirliggjandi gögn [bendi] til þess að kórónaveiran sé ekki upprunnin í Wuhan í Kína.“

Ekki samasemmerki milli uppruna og fyrsta staðfesta smits

Blaðið hefur þetta eftir fyrrverandi yfir-smitsjúkdómafræðingi við kínversku sóttvarnastofnunina, sem segir að veiran hafi vissulega fyrst greinst í Wuhan „en það var ekki þar sem hún varð til.“

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins tók í sama streng á fréttamannafundi um stöðu farsóttarinnar. Hann gekk reyndar ekki svo langt að fullyrða að veiran ætti ekki rætur í Wuhan en lagði mikla áherslu á að menn legðu það ekki að jöfnu, hvar COVID-19 greindist fyrst og hvar veiran barst fyrst úr dýrum í menn.

„Þótt Kína hafi verið fyrst til að greina frá tilfellum, þá þýðir það ekki endilega að veiran sé kínversk að uppruna,“ sagði talsmaðurinn, Zhao Lijian. „Upprunarakning stendur enn yfir og getur náð til margra landa og landsvæða.“

Vísindagrein bíður ritrýni fyrir mögulega birtingu í Lancet

Í frétt The Guardian segir að kínverskir vísindamenn hafi lagt fram grein til birtingar í vísindatímaritinu Lancet, þar sem því er haldið fram að Wuhan sé „ekki staðurinn þar sem fyrsta SARS-CoV-2 smitið barst á milli manna,“ heldur hafi það að líkindum verið á Indlandi. Greinin hefur ekki verið ritrýnd enn og því óljóst hvort hún verður birt.

"Hreinar getgátur" að veiran sé ekki kínversk

Vestrænir vísindamenn, segir í frétt Guardian, eru vantrúaðir á kenningar um að veiran eigi sér uppruna utan Kína. Michael Ryan, sem stýrir viðbrögðum Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar við bráðum heilbrigðisógnum, sagði í síðustu viku að vangaveltur um þetta væru lítið annað en „hreinar getgátur.“