Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kielsen í hörðum formannsslag

29.11.2020 - 12:55
Mynd: Danmarks Radio / DR
Formannskosning er í grænlenska stjórnarflokknum Siumut á landsþingi í Nuuk í dag. Ólga og spenna er í flokknum og margir óánægðir með Kim Kielsen, formann. Vivian Motzfeldt, forseti landsþingsins, Inatsisartut, og Erik Jensen, þingmaður Siumut, bjóða sig fram gegn Kim Kielsen, sem hefur verið formaður flokksins síðastliðin sex ár. 

Siumut áhrifamesti flokkurinn á Grænlandi

Landsþing Siumut er um helgina í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Siumut er jafnaðarmannaflokkur sem farið hefur með völdin lengst af þeim tíma sem Grænlendingar hafa búið við stjórn eigin mála. Ólga hefur verið innan flokksins síðustu misseri og raunar er óstöðugleiki algengur innan flestra flokka á Grænlandi og leiðtogaskipti tíð.

Sviptingar algengar í grænlenskum stjórnmálum

Sviptingar eru sömuleiðis algengar í stjórnarsamstarfi, en Kielsen hefur haldið embætti formanns landssstjórnarinnar þó að flokkar hafi gengið úr og í stjórn hans á kjörtímabilinu. 

Meirihluti lýsti vantrausti á formanninn

Í fyrra lýstu sex af tíu þingmönnum Siumut vantrausti á Kielsen og kröfðust afsagnar hans. Þingmennirnir sex og einn ráðherra Siumut segja í yfirlýsingu að Kim Kielsen hefði vanvirt þingið og kjósendur, tekið tekið ýmsar ákvarðanir þvert gegn stefnu flokksins og neitað að hitta flokksmenn til að ræða óánægju í flokknum. 

Hætti við að hætta

Kielsen stóð þetta af sér en sagðist ætla að hætta eftir þetta kjörtímabil. Kielsen hætti við að hætta. Hann segir að eftir hjartaaðgerð í fyrra sé hann við góða heilsu og hafi enn mikið fram að færa.

Stóð naumlega af sér vantraust

Kielsen er langt í frá óumdeildur og margar ákvarðanir hans hafa vakið óánægju og var efnt til mótmæla gegn stjórninni í síðasta mánuði. Þá stóð Kielsen naumlega af sér vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar. Aðeins munaði einu atkvæði. Hinir formannskandidatarnir á landsþinginu í dag eru Vivian Motzfeldt, forseti landsþingsins, Inatsisartut, og Erik Jensen, þingmaður Siumut. Flestir telja líklegast að Kielsen verði endurkjörinn.