Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Japanir setja kynjakvóta í pólitík og atvinnulífi

29.11.2020 - 07:27
epa08824891 Japanese Prime Minister Yoshihide Suga during a joint press conference with Australian counterpart Scott Morrison (unseen) during a joint news conference at Suga?s official residence in Tokyo, Japan, 17 November 2020.  EPA-EFE/Kiyoshi Ota / POOL
Yoshihide Sugar, forsætisráðherra Japans, vill auka hlut kvenna á þingi og æðstu stöðum stjórnsýslunnar Mynd: epa
Stjórnvöld í Japan hyggjast innleiða kynjakvóta á framboðslistum flokka í þing- og sveitarstjórnakosningum í landinu, fyrir árið 2025, til að tryggja að minnst 35 prósent frambjóðenda verði konur. Vonast stjórnvöld til að auka jafnrétti kynjanna í stjórnmálum landsins með því að setja skýr og lögbundin markmið sem þessi.

Í áætlun sem nýkjörinn forsætisráðherra landsins, Yoshihide Suga, lagði fyrir ríkisstjórn sína á dögunum eru jafnframt sett fram markmið og leiðir til að fjölga konum í áhrifastöðum hjá stofnunum og fyrirtækjum hins opinbera jafnt sem í einkageiranum.

Hlutfall kvenna á þingi enn lægra en meðal frambjóðenda

Í síðustu kosningum til neðri deildar japanska þingsins, 2017, voru aðeins 17,8 prósent frambjóðenda konur. Tveimur árum síðar, 2019, þegar kosið var til efri deildar þingsins, var hlutfallið öllu skárra, eða 28,1 prósent. Það er þó vel undir 35 prósenta markmiðinu.

Þá er ljóst að þótt 35 prósent frambjóðenda verði konur, má heita ólíklegt að sama hlutfall haldi sér á þingi. Þannig eru  og aðeins 46 af 465 fulltrúum í neðri deild þingsins eru konur í dag, eða 9.9 prósent, sem setur deildina í 167. sæti af 190 sem Alþjóðaþingmannasambandið heldur bókhald yfir. Þá eru einungis 16% japanskra héraðs-, borgar- og sveitarstjórnarfólks konur.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV