„Ég kann alveg að svara fyrir mig“

Mynd: Unga Ísland / RÚV

„Ég kann alveg að svara fyrir mig“

29.11.2020 - 08:35

Höfundar

Davíð Þór Jónsson prestur í Laugarneskirkju viðurkennir að saga hans sé ekki öll falleg og til fyrirmyndar. Þegar hann tók fyrst við prestakalli efuðust sumir um þjóðþekktan grínistann hlutverkinu og stundum hefur fólk afþakkað þjónustu hans vegna fortíðarinnar. Fleiri hafa þó leitað til sérstaklega til hans í trausti um að mæta ekki siðferðislegu yfirlæti.

Séra Davíð Þór Jónsson Radíusbróðir og prestur í Laugarneskirkju kveðst almennt séð ekki vera kjaftfor maður. Fúkyrðin sem hann brúkar þegar ástæðan er ærin eru allavega ekki þau ljótustu en stundum þarf hann að tjá skoðun sína um það sem honum mislíkar. „Ég reyni bara að sníða orðfæri mitt að því sem hentar tilefninu hverju sinni. Það er meira þannig að manni blöskrar eitthvað eða svíður svo mikið að maður verður bara að leyfa sér að segja eitthvað eins og: Þetta er argasta kjaftæði. Því frjálslega farið með staðreyndir eða vafasamar fullyrðingar ná ekki að fanga hve óforskammað það er sem maður er að gagnrýna.“

Þetta gerist þegar prestinum ofbýður og það gerist stundum. „Böl mitt og blessun í senn er þessi réttlætiskennd sem ég er fæddur með og kemur mér stundum í uppnám þegar henni er gróflega misboðið.“ Davíð Þór var gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í Segðu mér á Rás 1 þar sem hann sagði frá fortíðinni, prestsstarfinu, gagnrýninni og ljóðabók sem hann er að senda frá sér.

Ólíkar viðtökur

Davíð Þór á sér fortíð sem er ekki flekklaus. Það hefur komið fyrir að fólk hefur afþakkað þjónustu hans vegna þess að hann er sá sem hann er og kannski ekki síst því hann er sá sem hann var. „Það hefur oft ýtt mér út í sjálfsskoðun,“ viðurkennir hann.

Oftar hefur fólk þó leitað til hans sem hefði annars seint leitað til prests en er tilbúið að tala við hann vegna þess einmitt hver hann er. „Fólk hefur sagt við mig eitthvað á borð við: Ekki hélt ég að ég ætti eftir að þurfa eða vilja koma að ræða mín mál, líðan og tilfinningar við prest - en fyrst það ert þú.“

„Held að persóna mín laði fleiri að en fæli frá“

Og samanburðurinn er honum í hag. „Ég held að persóna mín laði fleiri að en hún fælir frá. Kannski af því fólk veit að ég á mér sögu, sem er auðvelt að gúgla og hún er ekki öll falleg og til fyrirmyndar,“ viðurkennir hann. „En ég held að fólki þyki það í raun og veru traustvekjandi þegar um presta er að ræða. Þau eru ekki að fara að mæta einhverri fordæmingu eða siðferðislegu yfirlæti. Ég hef kannski ekki alltaf verið ímynd hins siðprúða borgara.“

Hann var að nálgast fimmtugt þegar hann tók vígslu og þá átti hann að baki rúmlega tvo áratugi sem umdeild opinber persóna í gríni auk þess sem hann ritstýrði erótíska tímaritinu Bleikt og Blátt á árunum 1997–2001. Frægastur er hann líklega fyrir sinn helming í tvíeyki hans og Steins Ármanns Magnússonar, Radíusbræðrum.

„Það þurfti að brjóta og bramla“

Þar segir hann að þeir hafi oft gengið fram af fólki enda snerist ímynd þeirra að hluta um að vera stuðandi og að ögra. „Vera með almennan fíflaskap en vaða líka svolítið yfir þessi siðferðismörk sem fólk var búið að draga. Hvað má segja og að hverju má gera grín,“ segir hann. Það hafi enda verið lenskan hjá mörgum grínistum á tíunda áratugnum. „Okkar fyrirmyndir í gríni voru allir á þessari línu. Það var ekkert sem Radíusbræður fundu upp. Við vorum bara fyrstu Íslendingarnir til að hoppa á þá línu.“

Þegar litið er í baksýnisspegilinn eldist hún kannski ekki sem best en á sínum tíma segir hann að sú lína hafi verið nauðsynleg að hluta. „Það þurfti að brjóta og bramla,“ segir hann.

Miskunnarlaust gefið veiðileyfi á þá sem voru öðruvísi

Þegar hann horfir í kringum sig á ungt fólk í dag rifjar hann upp hvernig þjóðfélagið hefur breyst frá því sem hann ólst upp í. „Öll bælingin og kúgunin. Hvað þetta var svarthvítt og leiðinlegt.“ Þá hafi ekki verið neitt rými til að skera sig úr fjöldanum. „Það var miskunnarlaust gefið út veiðileyfi á hvern sem vogaði sér að væri pínulítið öðruvísi og halda að hann væri eitthvað.“ Það hafi í raun verið hinn stærsti glæpur. „Jafnaldri minn dúkkar upp í sjónvarpi og syngur lag og líf hans er eyðilagt af jafnöldrum því allt í einu er hann orðinn eitthvað.“

Línan fór yfir velsæmismörk og stundum örlaði á karlrembu

Tíundi áratugurinn hafi verið mikilvæg uppreisn gegn þessari bælingu þó sú uppreisn hafi ekki endilega elst vel. „Þessi lína fór yfir velsæmismörk og hún var mjög mysóginísk oft á tíðum. En ég held samt að það hafi verið hellingur af drasli sem þurfti að brjóta og bramla.“

Í dag þegar hann lítur um öxl og horfir til dæmis á gamalt Radíusbræðraefni þá kann hann ágætlega við manninn sem blasir við honum úr fortíðinni en þeir myndu líka hafa ýmislegt að ræða ef tækifæri gæfist. „Ég myndi alveg vilja gefa honum góð ráð,“ segir hann og hlær. „En hann er bara vísir að þeim manni sem ég sé í speglinum og er ágætlega sáttur við. Hann er stundum aðeins of mikið en það er gott í honum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Í kirkjunni fann Davíð Þór fljótt að hann væri kominn heim.

„Ég get ekki feikað það lengur“

Það var töluvert annar veruleiki sem blasti við Davíð tveimur áratugum síðar þegar hann gekk fyrst inn í Laugarneskirkju eftir að hafa tekið við prestakalli þar. Og tilfinningin var góð. „Mér leið ofboðslega vel,“ segir hann en viðurkennir að vandi fylgi vegsemd hverri. „Nú er þetta nýi kaflinn og ég er ekkert laus við þetta sem ég var að lesa mjög áhugaverða grein um, imposter syndrome.“

Lítil rödd innra með honum sagði honum að hann kynni ekki til verka og brátt myndi fólk átta sig á því. „Núna kemst upp um mig. Nú fatta allir að ég veit ekkert hvað ég er að gera. Ég get ekki feikað það lengur.“

Kominn heim

Brátt hafi hann hins vegar áttað sig á því að hann væri kominn heim. „Ég fann djúpt inni í mér að ég væri á réttum stað og um leið fannst mér það svo dásamlega fáránlegt hvernig lífið er. Þegar ég settist niður í kirkjunni í fyrsta skipti og hugsaði: Hér ertu orðinn sóknarprestur Davíð Þór.“

Tuttugu, jafnvel tíu árum fyrr hefði hann ekki trúað því að hann myndi finna sig á þessum stað. „Mér hefði þótt það ákaflega langsótt og líklega hlegið að viðkomandi.“

„Ég get alveg svarað fyrir mig“

Einhver gagnrýni mætti honum til að byrja með, einhverjum var brugðið að sjá grínista með prestakraga og tjáðu vantrú sína á honum í hlutverkinu en hann vorkenndi sér ekkert yfir því. „Ég kann alveg að svara fyrir mig og ég gef á mér höggstað og allt í lagi,“ segir hann. Móðir hans hafi hins vegar ekki tekið því eins vel þegar hún las ásakanir í garð sonarins um að hann væri illa upp alinn. „Ef þú vilt gagnrýna mig og það sem ég segi skulum við hafa uppeldi fyrir utan það.“

Vinirnir lugu að hann hefði gift sig hjá sýslumanni

Davíð gekk í það heilaga síðasta haust og að sjálfsögðu í kirkju. Einhverjum vinum hans fannst hins vegar bráðfyndið að koma þeirri flökkusögu á kreik að presturinn hefði látið gifta sig hjá sýslumanni. „Ég frétti bara nokkrum vikum síðar að fólk hefði heyrt það. Það þótti nógu fyndið til að sú saga væri látin ganga,“ segir hann kíminn. „En bara svo það sé leiðrétt þá var það ekki gert þannig.“

Fimm börn með þremur konum

Fjölskyldan er stór, Davíð á fimm börn með þremur konum. Börnin eru á aldrinum tveggja til þrjátíu og sjö ára. „Ég hélt í tuttugu og fimm ár að ég myndi ekki eignast fleiri börn. Það eru tuttugu og fimm ár á milli barna þrjú og fjögur.“ Hann á líka barnabörn á aldrinum eins árs og ellefu ára. Fjölskyldumynstrið er því ekki það hefðbundnasta. „Sonur minn sem er tveggja ára á systurson sem er ellefu ára.“

Hættir aldrei að hafa áhyggjur af börnunum

Alltaf hefur hann einhverjar áhyggjur af börnum sínum, sérstaklega þeim yngstu. „Ég var að velta því fyrir mér áður en ég fór að sofa í gær og kíkti á börnin: Hvað eru þau gömul þegar maður hættir að athuga hvort þau andi þegar þau sofa?“ Hann rifjaði upp hvenær hann hefði hætt því með eldri börnin en telur það hafa gerst ansi seint. „Ég held það hafi verið daginn áður en þau fóru að heiman.“

Trúarljóðabók samin í Skeifunni

Ljóð byrjaði hann fyrst að yrkja sem barn í sveit hjá ömmu sinni og afa þar sem ekki voru sagðir brandarar heldur kveðnar gamanvísur. Nú starfar hann sjálfstætt sem skáld meðfram prestsstarfinu.

Í fæðingarorlofinu fékk hann hugmynd um að taka messutextana og yrkja þá upp. Hann sendir frá sér bókina Allt uns festing brestur sem er trúarljóðabók sem er kveðin undir dróttkvæðum hætti. „Ég yrki trúarjátningu þar sem hvergi er minnst á Pontíus Pílatus eða þrjá daga í gröfinni heldur er þetta mín persónulega trúarjátning,“ segir hann. Síðustu línurnar í bókinni fæddust á þeim mishelga stað Bónus í Skeifunni. „Mig minnir að ég hafi verið á leiðinni þangað eða þaðan þegar lokaorðin komu til mín.“

Terminator-maraþon í stað Passíusálma

Messur Davíðs eru annars oft nokkuð hefðbundnar en hann hefur þó gaman af að bregða út af vananum og finnst að kirkjan eigi að gefa sér meira pláss til þess, frekar en að allar kirkjur í Reykjavík bjóði alltaf upp á það sama og á sama tíma. „Það er annað sem ég hef verið að gagnrýna,“ segir hann.

Fyrsta föstudaginn langa í prestatíð sinni olli hann nokkru uppnámi með því að bjóða upp á Terminator-maraþon í safnaðarheimilinu. „Af hverju er ekki Passíusálmaupplestur eins og hefð er fyrir?“ spurðu einhverjir. Davíð átti svar við því. „Fyrirgefðu, en það eru allar kirkjur í kringum okkur í Passíusálmaupplestri. Það er enginn að banna það eða finnast það slæmt en kannski eru Passíusálmar ekki fyrir alla.“ Fyrir þá sem vildu frekar velta fyrir sér kristinni trú út frá óvæntu sjónarhorni þennan dag var hægt að ræða hana og horfa á bíó hjá Davíð.

John Connor og Jesus Christ

Þá var horft á myndirnar þrjár og á milli þeirra rætt hvernig kvikmyndagerðarmennirnir vinna með trúarstef sem tekin eru beint úr Biblíunni. „Þar með er ég ekki að segja að Terminator sé falleg saga eða að það sé trúarlegur boðskapur í henni endilega. Það er ofbeldi og hasar,“ segir hann.

Fyrsta myndin sé til að mynda einn stór Messíasarspádómur. „Sjá mær mun verða þunguð og hún mun ala son og hann mun frelsa mannkynið,“ segir Davíð. „Það er það sem fyrsta myndin snýst um.“

Það sé til dæmis engin tilviljun að drengurinn heiti John Connor og nafn hans sé skammstafað eins og Jesus Christ. „Svo endar myndin á að vondi kallinn hverfur í eldhafið. Sem er bara bein hliðstæða við dauða Satans í Opinberunarbókinni.“

Guð dúkkar upp handan við hornið og gerir mann andstuttan

Laugarneskirkja sker sig úr að því leyti að hún blasir ekki við frá fjölförnum umferðargötum heldur er aðeins falin. Davíð segir að þegar kirkjan hafi verið teiknuð hafi staðið til að hafa fyrir framan hana stórt hringtorg þar sem Kringlumýrarbraut er núna. En honum finnst sjarmerandi að hún birtist fólki stundum óvænt en blasi ekki alltaf við.

„Þegar maður kemur að kirkjunni, yfir göngubrúna og kirkjan birtist í allri sinni fegurð við endann á göngustígnum römmuð inn af trjágöngunum finnst mér það ofsalega fallegt. Þannig birtist Guð okkur líka stundum. Allt í einu dúkkar hann upp hinum megin við hornið. Gerir mann andstuttan.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Davíð Þór Jónsson í Segðu mér á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Fann föður sinn aftur fyrir ótrúlega tilviljun

Menningarefni

„Framhjáhald getur verið það besta sem kemur fyrir“

Bókmenntir

„Hvar eru börnin hennar Ólínu?“

Menningarefni

Ekkert í boði annað en að lifa sorgina af