Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Ég held að það sé talsvert af smitum þarna úti“

©Kristinn Ingvarsson
 Mynd: Háskóli Íslands
Mikill munur er á smitstuðlinum í þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins og í þeirri fyrstu. Helmingi færri COVID-19 smit greindust í gær en í fyrradag, en of snemmt er að segja til um hvort það hafi áhrif á stuðulinn. Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, segir að búast megi við að áfram muni um og yfir tuttugu smit greinast daglega.

Með smitstuðli er átt við hversu marga hver og einn, sem sýkist af kórónuveirunni, smitar. Í fyrstu bylgju faraldursins fór hann upp í tæplega þrjá og hefur hæst farið upp í sex í þessari þriðju bylgju. Það var í kjölfar hópsmita á veitingastöðum.

Í spálíkani Háskóla Íslands um þróun faraldursins sem gefið var út fyrir helgi er hann 1,5. Thor er einn ábyrgðarmanna líkansins. Hann segir að nokkrir dagar þurfi að líða til að sveiflurnar sem hafa verið í fjölda greindra smita undanfarna daga jafnist út, áður en hægt sé að leggja mat á hvort breyting hafi orðið á smitstuðlinum.

„En hann hefur allavegana ekkert lækkað mikið, hann er ennþá í þessu bili einn plús, því miður, fyrir ofan einn. Maður þarf að sjá þróunina yfir nokkra daga, hvort hann er jafnt og þétt að fara upp eða jafnt og þétt að fara niður,“ segir Thor.

Hannsegir að þegar líði á næstu viku muni liggja fyrir hvort breytingar hafi orðið á smitstuðlinum. Hann segir mikinn mun vera á þróun hans núna og í fyrstu bylgju faraldursins.

„Það eru miklu meiri sveiflur í þessu núna. Það koma inn í þessi hópsmit, þar hafa einstaklingar náð að smita mjög mikið út frá sér. Og hann er að fara upp og niður en í fyrstu bylgjunni var þetta bara ákveðin uppleið og svo niður jafnt og þétt. Þannig að þetta er erfiðara að eiga við núna,“ segir Thor.  „Við þurfum að bíða aðeins og sjá til, við töluðum um að á fimmtudaginn væri kannski komin skýr mynd á þetta. Kannski tekst að koma í veg fyrir þessa bylgju jafnvel. En ég er ekkert bjartsýnn á það þannig, ég held að það sé talsvert af smitum þarna úti.“

Bæði á fimmtudag og föstudag greindust um 20 smit. Thor segir að vel megi búast við slíkum fjölda smita áfram á hverjum degi. „Það kæmi ekkert á óvart að við sæjum þessar tölur á svipuðum nótum. Því miður.“