Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bændur fá sálfræðistuðning vegna riðuveiki í Skagafirði

29.11.2020 - 10:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Landbúnaráðherra, formaður Bændasamtaka Íslands og fulltrúar sveitarfélaga í Skagafirði hafa skrifað undir samkomulag við Kristínu Lind Jónsdóttur, sálfræðing, um að veita heimilisfólki á þeim búum þar sem riðuveiki hefur greinst sálfræðiþjónustu og ráðgjöf. Þjónustan verður í boði í Skagafirði þegar aðstæður leyfa eða í gegnum fjarfundabúnað.

Í tilkynningu frá atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytinu kemur fram að bændur hafi fengið sent fræðslu-og leiðbeiningarefni sem hefur verið tekið saman um áhrif af ytri áföllum á líðan fólks og hagnýt ráð sem hafa reynst vel þegar erfiðleikar og áföll ganga yfir. „Sjónum er sérstaklega beint að viðbrögðum ef riðuveiki greinist í sauðfé.“

Kristín Lind sækir auk þess upplýsingafund fyrirhugað er að halda fljótlega þar sem hún tekur þátt í umræðum og svarar spurningum.

Þann 22 október var riða staðfest á Stóru-Ökrum 1 og ljóst að skera þyrfti niður allt fé niður. Tæpri viku síðar var svo tilkynnt um smit á þremur öðrum bæjum í Skagafirði og tilkynnt að lóga þyrfti um 2.400 fjár. Bæirnir þrír, Syðri Hofdalir, Grænamýri og Hof í Hjaltadal eru allir í sama smitvarnarhólfi og Stóru Akrar. Um miðjan þennan mánuð var svo staðfest riða á fimmta bænum.

Riðuveikin var mikið áfall fyrir bændurna og lýsti bóndinn á á Stóru-Ökrum 1 því í samtali við fréttastofu að sektarkennd hefði hellst yfir hann eftir að málið kom upp. Það væri erfitt að horfa á eftir ævistarfinu.  „Það er vond tilfinning og ég var í raun og veru marga daga bara að ná mér út úr því en svo bara ákveður maður það að. Við getum ákveðið sumt sko og ég ákvað það bara að ég væri ekki sekur.“