Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Þetta var kapphlaup við tímann“

28.11.2020 - 19:12
Móskarðshnjúkar
 Mynd: Landsbjörg - Ljósmynd
Göngumaður sem leitað var í Móskarðshnjúkum síðdegis í dag fannst heill á húfi um klukkan hálf sjö ásamt hundi sínum sem var með í för. Björgunarsveitir voru kallaðar út til leitar um fimmleytið, en þá óskaði maðurinn eftir hjálp þar sem hann hafði villst af leið og átti í erfiðleikum með að staðsetja sig vegna myrkurs.

Um hundrað björgunarsveitarmenn tóku þátt í leitinni og var notast við ljóskastara til að finna hann. Maðurinn var í símasambandi allan tímann, en lítið var eftir af rafhlöðu síma hans þegar hann fannst.

„Við náðum að senda honum ljósmerki, hann gat gefið merki á móti og þannig gátum við staðsett hann,“ segir Davíð Már Bjarnason upplýsingafulltrúi Landsbjargar. „Þá var í startholunum að senda upp neyðarblys. Þetta var kapphlaup við tímann, það var orðið kalt og leiðindaveður þarna ofarlega.“

Að sögn Davíðs var maðurinn fluttur niður á láglendi í björgunarsveitarbíl.  Hann var kaldur og orkulítill, en ekkert amaði að honum að öðru leyti, að sögn Davíðs.