„Það er gaman að fara í svona úrslitaleiki"

Mynd: RÚV / RÚV

„Það er gaman að fara í svona úrslitaleiki"

28.11.2020 - 18:22
Ísland mætir Ungverjalandi í lokaleik liðsins í undankeppni EM sem fer fram 2022. Sigur gegn Ungverjum gæti dugað Íslandi til að komast beint á lokamótið og losna þannig við umspilsleiki.

Eftir 3-1 sigur á Slóvakíu á fimmtudaginn hélt landsliðið til Ungverjalands í gær. Hallbera Guðný Gísladóttir segist vera ánægð að hafa náð í stigin þrjú gegn Slóvakíu þó vissulega hefði mátt gera betur. „Bara mjög gott að klára þennan leik svona sannfærandi af því að fyrri hálfleikur var lélegur hjá okkur. Það var rosalega gott að koma  í seinni hálfleikinn sannfærandi og ganga frá þeim 3-1. Þær áttu eiginlega aldrei möguleika í seinni hálfleik," segir Hallbera. 

Eftir sigurinn á Slóvakíu er Ísland öruggt með 2. sæti í riðlinum og sæti í umspili um sæti á EM. Sigur á Ungverjalandi myndi þó að öllum líkindum gera Ísland að einu af þremur bestu liðunum í öðru sæti liðanna og komast þannig beint á EM. Það ræðst þó ekki fyrr en öllum leikjum er lokið í öllum riðlunum. 

„Það er gaman að fara í svona úrslitaleiki. Við vitum að við þurfum að vinna þennan leik ef við ætlum að koma okkur beint inn á EM. Þetta verður vonandi bara skemmtilegur dagur og við ætlum að enda hann á góðum sigri. Við erum alveg með nógu mikið af gæðum í okkar liði tel ég, þannig að við eigum alveg að geta klárað þennan leik. Auðvitað þurfum við að vera einbeittari heldur en við vorum í síðasta leik, það sýndi sig að við vorum ekki á tánum þar og þá refsa þessi lið okkur. Ef við mætum með hausinn í lagi þá held ég að við eigum alveg að geta klárað þetta," segir Hallbera. 

Leikur Íslands og Ungverjalands er á þriðjudag klukkan 14:30 og verður leikurinn í beinni útsendingu á RÚV auk þess sem honum er lýst á Rás 2. 

Tengdar fréttir

Fótbolti

Ísland skrefi nær EM