Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

TF-GRÓ fer ekki í loftið á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan - RÚV
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GRÓ. verður ekki til reiðu á morgun eins og að hafði verið stefnt. Reglubundin skoðun á þyrlunni tekur lengri tíma en áætlað var og vonast er til þess að hún verði útkallsfær á mánudaginn.

Þetta segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Flugvirkjar Landhelgisgæslunnar sneru aftur til starfa í morgun eftir að Alþingi samþykkti lög á verkfall þeirra í gær. Þeir höfðu þá verið í verkfalli í þrjár vikur, eða frá miðnætti 6. nóvember. „Svona skoðun tekur að lágmarki tvo daga, en getur vel tekið lengri tíma af ýmsum ástæðum. Það er ekkert óeðlilegt við það,“ segir Ásgeir.

„Það hefur verið unnið í þyrlunni síðan fyrir helgina og síðan í morgun hefur verið fullmönnuð vakt. Þetta er heldur umfangsmeira en búist var við og oft erfitt að meta hversu langan tíma svona skoðanir taka.“

Spurður hvaða aðrir möguleikar séu fyrir hendi, komi upp sú staða að þörf verði á aðstoð björgunarþyrlu um helgina, segir Ásgeir að þeir séu ekki margir. „Við erum með tvö varðskip á sjó. Svo verðum við að líta til björgunarsveitanna um allt land.“