Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir þetta til marks um hversu hratt smitin geta dreifst ef veiran fer af stað. Hann biðlar því til fólks að passa sig á hópamyndunum, að vera ekki að hittast, innan fjölskyldna né utan.
Fréttastofa tók saman raunverulegt dæmi úr þriðju bylgjunni, sem sýnir hvernig eitt smit getur breiðst út á skömmum tíma, þrátt fyrir að sá sem smitaðist fyrst fylgi settum sóttvarnarreglum og hitti einungis vini og fjölskyldu í litlum hópum. Dæmið er fengið frá smitrakningarteymi almannavarna.
Kona veiktist og fór heim úr vinnu þegar hún fann til einkenna. Hún reyndist smituð af veirunni.
Vinnustað konunnar var skipt upp í sóttvarnahólf. Með konunni í sóttvarnarhólfi voru fimm aðrir sem allir þurftu að fara í sóttkví. Af vinnufélögunum smituðust tveir af veirunni, og einn þeirra smitaði einnig maka og barn í sóttkví.
Daginn áður en konan fann til einkenna hafði hún farið út að hlaupa með skokkhópi. Eftir æfinguna hitti hún vinkonur úr menntaskóla í heimahúsi.
Allir í skokkhópnum fóru í sóttkví þegar konan greindist, sjö manns, þar af smituðust tveir af veirunni. Annar þeirra var í sóttkví með maka og tveimur börnum, sem smituðust einnig.
Konan hitti svo fjórar vinkonur sínar sem fóru einnig í sóttkví, þrjár þeirra greindust með veiruna - og ein smitaði maka og barn.
Konan var í einangrun á heimili sínu og maki hennar og fjögur börn sem búa með henni greindust öll með veiruna.
Vegna þessa eina smits og fjögurra hópa sem konan hitti fóru 21 strax í sóttkví, þar af greindist rúmur helmingur með kórónuveiruna eða 12 manns á innan við viku. Út frá þeim smitum veiktust svo 7 til viðbótar.
Í heildina má því rekja 19 smit, hjá átta börnum og ellefu fullorðnum, til eins einstaklings - og eitt smit varð að tuttugu á rétt rúmri viku.