Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Segir Krónuna vilja styðja við nýja verslun á Klaustri

28.11.2020 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Skaftárhreppur
Framkvæmdastjóri Krónunnar, sem rekur verslunina Kjarval á Kirkjubæjarklaustri, segir fyrirtækið vilja vinna með þeim sem opni verslun á staðnum eftir að Kjarval verði lokað. Auk þess muni íbúunum bjóðast að kaupa matvöru í netverslun Krónunnar.

Versluninni Kjarval á Kirkjubæjarklaustri verður lokað um ármót. Eigendur Systrakaffis hafa keypt húsnæði Kjarvals og segjast vilja tryggja að þar verði áfram verslun. Hvort þau fari sjálf út í þannig rekstur eða hann verði í höndum annarra eigi eftir að koma í ljós.

Krónan eigi í viðræðum við nýja eigendur hússins

Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir fyrirtækið í viðræðum við nýja eigendur hússins um samstarf verði verslun opnuð þar aftur. „Það er auðvitað eiganda hússins að ákveða hverskonar starfsemi verði í húsinu. En það er alveg ljóst að þessar samningaviðræður sem við áttum við þau um og erum í núna varðandi áframhaldandi rekstur, þær snúa að því að þarna verði verslun og þjónusta. Og það er auðvitað bara skiljanlegt og það er mikill þrýstingur frá sveitafélaginu um það. Þess vegna erum við í þessu samtali um það hvernig það verður mótað.“

Framtíðarþróunin að kaupa matvöruna í netverslun

Annar kostur sé að bjóða heimamönnum í Skaftárhreppi að versla í gegnum netverslun Krónunnar. „Og við viðurkennum það að við sjáum þetta sem framtíðarþróunina. Að það skiptir í rauninni ekki máli hvar þú búir á landinu, þú getir nálgast sama vöruúrval á sama verði um allt land.“

Vilja tryggja áfram ákveðna þjónustu á staðnum

En að fá vörur úr netverslun afhentar tvisvar í viku telja heimamenn aldrei koma í staðinn fyrir verslun á staðnum. Ásta tekur undir það. „Ég held að það geti allir sammælst um það. Við gleymum oft í innkaupum og það vantar einn mjólkurpott eða brauð eða hvað það er. Það er nákvæmlega þannig þjónusta sem við viljum tryggja áfram á Klaustri. Og við munum sjá til þess að við getum stutt við þá eigendur sem munu taka við, að þeir geti keypt af okkur vörur svo ég segi það bara alveg hreint og beint.“