Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Rúnu dæmdar bætur eftir áralanga baráttu

28.11.2020 - 10:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær fyrrverandi sambýlismann Rúnu Guðmundsdóttur til að greiða henni samtals 1,3 milljónir vegna heimilisofbeldis. Dómurinn telur sannað að hann hafi lagt hendur á hana, háttsemi hans hafi verið fólskuleg og staðið nokkuð lengi yfir á sameiginlegu heimili þeirra sem átti að vera griðastaður hennar. Sakamál á hendur manninum hlaut aldrei efnislega meðferð fyrir dómstólum vegna mistaka sem gerð voru hjá lögreglu.

Árásin átti sér stað á heimili þeirra í maí 2015.  Rúna krafði manninn um rúmar fjórtán milljónir í bætur og 2,5 milljónir í miskabætur.

Í vottorði læknis sem lagt var fyrir dóminn kom fram að Rúna hefði verið með marga yfirborðsáverka og tognun og ofreynslu á hálshrygg, baki og mjöðm auk áverka á hljóðhimnu.

Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni að ágreiningslaust sé að þau hafi átt í rifrildi þetta kvöld á heimili þeirra. Að öðru leyti greini þau á hvað átti sér stað. Maðurinn þvertók fyrir að hafa beitt hana ofbeldi á þann hátt sem hún lýsti „enda þótt hann hafi lýst því fyrir dómi að hann gæti gengist við hluta af því sem hún héldi fram,“ eins og það er orðað í dómnum. 

Dómurinn segir framburð Rúnu um atvik málsins trúverðugan, hún hafi virst einlæg og það hafi sýnilega tekið á hana að rifja ofbeldið upp.  Staðhæfingar hennar um háttsemi mannsins fái auk þess veruleg stoð í áverkavottorðinu.

Þá beri einnig að horfa til framburðar móður Rúnu og systur hennar fyrir dómi auk skýrslu sálfræðings.  Athygli vekur að maðurinn taldi að hægt væri að draga óhlutdrægni sálfræðingsins í efa þar sem þau hefðu verið kærustupar á yngri árum.   Sálfræðingurinn hafnaði því fyrir dómi. Að mati dómsins taldist sú staðhæfing því ósönnuð.

Dómurinn telur því sannað að maðurinn hafi lagt hendur á Rúnu í samræmi við málatilbúnað hennar.  Það hrófli ekki við niðurstöðunni að þau hafi átt í samskiptum í nokkrar vikur eftir atvikið og reynt að bæta samband sitt. Dómurinn hafnaði því einnig að einhvers konar neyðarréttur hefði réttlætt háttsemi mannsins.  Hún hafi verið fólskuleg, staðið lengi yfir á sameiginlegu heimili þeirra sem hafi átt að vera griðastaður hennar.

Var niðurstaða dómsins að manninum bæri að greiða henni 550 þúsund krónur í bætur og 800 þúsund krónur í miskabætur.

Fréttastofa fjallaði ítarlega um mál Rúnu á sínum tíma.   Hún kærði heimilisofbeldið til lögreglu á sínum tíma. Vegna mistaka misfórst upptaka af skýrslutöku hennar auk þess sem málið var látið niður falla áður en kærufrestur var liðinn.  Maðurinn fékk bréf um niðurfellinguna og það varð til þess að héraðsdómur vísaði málinu frá þar sem talið var að ný gögn þyrfti til að taka málið upp að nýju. 

Rúna fór meðal annars á fund Sigríðar Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, til að ræða hvað hefði betur mátt fara í máli hennar. Hún fékk ekki gjafsókn í einkamálinu þrátt fyrir mistök lögreglu þar sem tekjur hennar voru metnar of háar.