Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ráðuneyti gerir alvarlegar athugasemdir í eineltismáli

28.11.2020 - 19:45
Fagráð eineltismála og Mennta- og menningarmálaráðuneytið gera alvarlegar athugasemdir við hvernig Garðaskóli hefur brugðist við eineltismáli sem þar kom upp. Barnið er nú í heimakennslu. Foreldrarnir segjast ráðþrota vegna skorts á svörum skólans og bæjaryfirvalda.

Málið hófst í byrjun árs 2019, þegar foreldrar stúlku í Hofstaðaskóla urðu þess áskynja að dóttur þeirra liði illa í skólanum og hefði líklega orðið fyrir einelti og aðkasti um einhverja hríð. Stúlkan fór síðan yfir í Garðaskóla um haustið. Þar fór þó fljótlega að halla undan fæti og foreldrarnir tilkynntu um einelti sem lýsti sér meðal annars í útskúfun og áreiti á samfélagsmiðlum.

Nú, einu og hálfu ári síðar, er staðan þannig að stúlkan er í heimakennslu og tekur engan þátt í félagsstarfi. 

Ekki talað um einelti, heldur samskiptavanda

Foreldrar stúlkunnar eru ósáttir við viðbrögð skólans, þar sem ekki var talað um einelti heldur samskiptavanda. Eftir tilfinningaþrunginn fund var foreldrunum svo bannað að hafa beint samband gegnum tölvupóst og síma. Síðan þá hafa öll samskipti farið fram í gegnum millilið. 

Í lok árs 2019 leitaði Garðaskóli til Fagráðs eineltismála sem gerði úttekt. Þar kom meðal annars fram að skólayfirvöld þyrftu að rýna eigin viðbrögð og aðgerðir í málinu. Þegar ekki var brugðist við því af hálfu skólans sendi ráðið frá sér annað álit, þar sem skólinn var gagnrýndur fyrir að hafa ekki farið eftir ráðleggingum. 

Foreldrarnir hafa leitað aðstoðar víða

Í júní lokaði þáverandi skólastjóri Garðaskóla eineltismálinu á síðasta vinnudegi sínum. Foreldrar stúlkunnar segjast vera ráðþrota og hafa meðal annars leitað aðstoðar Barnaverndarnefndar, Sjónarhóls og umboðsmanns Alþingis. 

Í þriðju úttekt Fagráðs eineltismála, sem dagsett er í mars, segir að ráðið telji aðkomu sína að málinu fullreynda og vísaði því til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins. 

Í byrjun nóvember sendi ráðuneytið bréf til  bæjarstjóra Garðabæjar þar sem segir að litið sé alvarlegum augum á að málið sé komið í þennan farveg. Í bréfinu kemur fram að ráðuneytið telji ekki samrýmast lögum að skólinn hafi lokað á samskipti við foreldrana og er gerð alvarleg athugasemd við það. Þá eru gerðar athugasemdir við að eineltismáli sé lokað af hálfu skólastjóra án þess að fullnægjandi árangur hafi náðst. Er brýnt fyrir sveitarfélaginu að á því hvíli lögbundin skylda til að takast á við vandann.

Málið er enn í vinnslu hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Fátítt að eineltismál fari á þetta stig

Jóhann Skagfjörð Magnússon, skólastjóri Garðaskóla, vildi ekki veita fréttastofu viðtal vegna málsins þar sem hann gæti ekki tjáð sig um einstök mál nemenda við skólann.

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdaskóli Heimilis og skóla, segir fátítt að eineltismál fari á þetta stig í stjórnsýslunni. Sveitarfélögum beri skylda til að leysa slík mál.

„Og það er alveg skýrt í lögum. Það eru ákveðin réttindi sem börn hafa og við skulum ekki gleyma því að í þessu máli, burtséð frá samskiptum þeirra fullorðnu, er barn sem líður illa og er búið að líða illa lengi. Og það þarf að finna út úr því, burtséð frá öllu öðru sem hefur átt sér stað,“ segir Hrefna.

Hún segir mikilvægt að brugðist sé við í málinu. „Fólk sýni skynsemi og auðmýkt í þessum málum. Það verður bara að halda áfram þar til einhver lausn finnst, það má ekki leggja árar í bát. Skólar hafa mjög ríkar skyldur hér.“