Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Konurnar sem þeir eru skotnir í eru líka með hrukkur“

Mynd: RÚV / RÚV

„Konurnar sem þeir eru skotnir í eru líka með hrukkur“

28.11.2020 - 15:45

Höfundar

Hallveig Rúnarsdóttir óperusöngkona sá kvikmyndina The Sting, eða Gildruna, í leikstjórn George Roy Hill fyrir akkúrat 24 árum þegar hún og maðurinn hennar voru nýbyrjuð að rugla saman reytum. „Við vorum auðvitað bara í ástarbrími þarna fyrst,“ rifjar Hallveig upp. Gildran er í Bíóást á RÚV í kvöld.

Eins og fólk gerir gjarnan á fyrstu stigum sambands fóru þau Hallveig Rúnarsdóttir og Jón Heiðar Ragnheiðarson reglulega á vídeóleigu, í þeirra tilviki Aðalvídeóleiguna á Klapparstíg, til að finna sér mynd til að horfa á saman í sófanum. The Sting varð fyrir valinu í einni slíkri ferð og síðan hefur hún átt sérstakan stað í hjörtum þeirra þó hún sé kannski ekki sú allra rómantískasta. Í 24 ár hafa þau reglulega rifjað myndina upp saman enda segir hún að hægt sé að horfa á hana endalaust.

Myndin er í senn gaman- og hasarmynd með þeim Robert Redford og Paul Newman í aðalhlutverkum. „Hún er rosalega spennandi og plottið í henni er hreint út sagt stórkostlegt,“ segir Hallveig. Þó það megi sjá veikan blett í frammistöðu ýmissa aukaleikara þá segir hún aðalleikarana standa sig frábærlega. „Þeir tveir eru með æðislegan leik með sín bláu augu sem alveg stórkostlegt er að horfa á. Náttúrulega gullfallegir menn,“ segir hún.

Kvikmyndin var frumsýnd árið 1973 og Hallveig hjó eftir einu sem ekki tíðkast oft í seinni tíma hasarmyndum með karlkynstöffurum í aðalhlutverki. „Konurnar sem þeir eru skotnir í eru jafn gamlar og þeir og þær eru líka bara með hrukkur,“ segir Hallveig.

Oftast séu skvísurnar allt að því helmingi yngri en mennirnir og óaðfinnanlegar í útliti en í þessu tilviki eru þær ekki aðeins á sama aldri heldur eru þær mannlega ófullkomnar. „Og mér finnst það vera eitthvað sem mætti aðeins endurskoða með þessar nýju myndir. Það mætti vera jafnvægi.“

Að lokum hvetur hún áhorfendur til að hlusta sérstaklega eftir tónlistinni í myndinni sem flestir ættu að þekkja, hvort sem þeir hafa séð myndina eða ekki.

The Sting er í Bíóást á RÚV í kvöld klukkan 23:25.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Ég grét og grét og mamma og pabbi líka“

Kvikmyndir

Forsetinn sem skildi eftir opið sár á þjóðarsálinni