
Verslanir, veitingastaðir og krár verða opnaðar á Írlandi
Á Írlandi munu á milli 100 - 150.000 manns geta snúið aftur til vinnu í næstu viku, þar sem heimilt verður að opna allar verslanir, veitingastaði og líkamsræktarstöðvar á ný, og einnig allar þær krár sem bjóða upp á mat. Leo Varadkar, viðskipta- og aðstoðarforsætisráðherra, tilkynnti þetta í gærkvöld.
Nær 150.000 manns hafa bæst í hóp þeirra sem þiggja hlutabætur úr ríkissjóði síðan byrjað var að herða sóttvarnaraðgerðir í september, þar af um 100.000 eftir að gripið var til víðtækra lokana 21. október.
Einbúar mega fá tvö í heimsókn um jólin
Í Belgíu fara stjórnvöld sér öllu hægar við að slaka á sóttvarnaaðgerðum, og þær litlu tilslakanir sem boðaðar eru gilda einungis yfir blájólin. Verslanir sem ekki selja nauðsynjavörur, öldurhús, veitinga- og samkomustaðir af öllu tagi verða áfram lokuð og strangar fjöldatakmarkanir í gildi.
Í tilkynningu stjórnvalda frá því í gær segir að fólki sem býr eitt verði heimilt að fá tvær manneskjur í heimsókn samtímis dagana 24. og 25. desember, í stað einnar nú. Þessar tvær manneskjur verða þó að vera úr hópi allra nánustu vina eða ættingja viðkomandi. Samkvæmt gildandi reglum er fólki einungis heimilt að fá einn gest inn á heimili sitt í einu. Það á einnig við þar sem fleiri eru í heimili, og á því verður engin breyting um jólin.