Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvorki Hofsjökull né Langjökull eftir 150 - 200 ár

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Verði þróun veðurfars eins og spáð hefur verið verða Hofsjökull og Langjökull horfnir eftir 150 til 200 ár. Þetta kemur fram í nýrri samantekt um jöklabreytingar á Íslandi undanfarin 130 ár. Í samantektinni kemur fram að íslenskir jöklar hafa rýrnað að meðaltali um 16% síðan í byrjun 20. aldar. Meðal höfunda hennar er Finnur Pálsson, rafmagnsverkfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sem hefur unnið að jöklarannsóknum í áratugi.

„Þetta er þróun sem hefur verið um allan heim, enda er að hlýna um allan heim. Þetta hefur gerst mest á tveimur tímabilum, tímabilið á síðustu öld var frá 1930 til 1950, þá voru mikil hlýindi. Og síðan aftur eftir 1995. Síðan 1995 náði rýrnunin hámarki árið 2010 sem var mjög hlýtt, þá höfðu eldgos spúð ösku á yfirborð jöklanna sem jók á bráðnun þannig að tapið þá var með mesta móti,“ segir Finnur.

Finnur segir að þrír stærstu jöklar landsins; Vatnajökull, Hofsjökull og Langjökull hafi allir rýrnað hratt frá 1995. Langjökull hafi þynnst um einn og hálfan metra á ári síðan þá. Hofsjökull um rúmlega metra á ári og Vatnajökull um tæpan metra árlega. 

„Stærsti jökullinn Vatnajökull er um 400 metra þykkur að meðaltali þannig að hann endist nú nokkuð lengi.  En Langjökull og Hofsjökull eru innan við 200 metra þykkir að meðaltali þannig að þeir hverfa hratt ef svo heldur áfram sem horfir,“ segir Finnur. „Það er líklegt miðað við það sem okkur er sagt um þróun veðurs. Þá verða Langjökull og Hofsjökull væntanlega að mestu horfnir eftir svona 150-200 ár.“