Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Halda að hægt sé að panta gistingu í Farsóttarhúsi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Talsvert er um að fólk telji sig geta pantað gistingu í Farsóttarhúsi fyrir vini og ættingja sem von er á frá útlöndum og þurfa að fara í sóttkví við komuna til landsins. Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður hússins segir að vonir hafi staðið til um að hægt yrði að loka húsinu fyrir jól, en svo verði líklega ekki.

Farsóttarhús eru rekin af Rauða krossinum og eru ætluð þeim sem hafa greinst með kórónuveiruna og geta ekki verið í einangrun annars staðar. Í undantekningartilfellum er þar fólk í sóttkví en það er einungis í boði, eigi viðkomandi ekki í önnur hús að venda. 

„Þeir sem hjá okkur dvelja koma annaðhvort í gegnum rakningateymið eða í gegnum COVID-deildina sjálfa. Við tökum vanalega sýkta til okkar en undantekningin er að við tökum til okkar í sóttkví fólk sem er heimilislaust, getur hvergi höfði sínu hallað annars staðar. Þar á meðal eru flóttamenn en einnig heimilislausir Íslendingar. Og svo fólk sem býr þar á landinu að erfitt sé að komast í seinni skimun þegar komið er til landsins. En alla jafna þarf fólk að redda sér sjálft í þessari biðsóttkví eftir að þau koma erlendis frá,“ segir Gylfi.

Hann segist fá tugi símtala á dag þar sem fólk vill panta gistingu í Farsóttarhúsi fyrir ættingja og vini sem von er á erlendis frá. „Það er mikið um það og er að aukast núna þegar nálgast desembermánuð. En það eru aðrir gististaðir betur til þess fallnir að fólk verði á heldur en hjá okkur, því við miðum okkar starf við sýkta einstaklinga. Ef fólk er að koma til landsins fyrir jólin og getur ekki verið hjá vinum eða ættingjum í þessari biðsóttkví af einhverjum ástæðum, þá er bara að fara inn á vef Ferðamálastofu og finna þar góðan gististað í þessa fimm daga.“

Gylfi segir að flestir átti sig á hlutverki Farsóttarhúss þegar það er útskýrt fyrir þeim. „En þó eru einhverjir sem finnst það alveg sjálfsagt að við hýsum börn og ættingja sem eru á leiðinni til landsins.“

Öllum húsum lokað nema einu

Núna dvelja 23 í Farsóttarhúsinu við Rauðarárstíg, en í síðasta mánuði voru þar að meðaltali 100 hvern dag. Nú er einungis eitt hús af tveimur í notkun á höfuðborgarsvæðinu og enginn dvelur í húsunum á Akureyri og Egilsstöðum. Þeim hefur nú verið lokað tímabundið en Gylfi segir að hægt sé að opna þau með skömmum fyrirvara. 

Hann segir að vonir hafi staðið til að hægt yrði að loka farsóttarhúsunum fyrir jól, en miðað við núverandi stöðu faraldursins sé það ólíklegt. „Þetta er aðeins að aukast hjá okkur. Þetta var farið að minnka og við farin að vona að geta lokað fyrir jól. En því miður sýnist okkur að við þurfum að hafa þessi úrræði opin yfir jólin,“ segir Gylfi.