Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fjölmenn mótmæli í París gegn nýjum lögum

28.11.2020 - 19:01
epa08849539 A protester holds a poster reading 'Police Kills' during a demonstration against the newly passed controversial global security law, in Paris, France, 28 November 2020. The global security legislation passed by the French Parliament aims to ban the distribution of photos in which police officers and gendarmes can be identified in a way which is harmful to their image.  EPA-EFE/CHRISTOPHE PETIT TESSON
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Til átaka kom í Paris þegar 46 þúsund komu saman í frönsku höfuðborginni til að mótmæla nýjum lögum sem bannar fjölmiðlum að birta myndir af andlitum lögreglumanna. Lögin koma á viðkvæmum tíma þar sem stutt er síðan fjölmiðlar birtu myndskeið af lögreglumönnum beita blökkumann ofbeldi á meðan þeir létu rasísk ummæli falla.

Myndskeiðið vakti hörð viðbrögð. Emmanuel Macron,  forseti Frakklands, sagði það til skammar fyrir Frakkland.  Það hefur jafnframt vakið upp enn frekari spurningar um hvort kynþáttahyggja innan lögreglunnar í Frakklandi sé kerfislæg. 

„Lögreglan alls staðar - réttlæti hvergi,“ voru meðal þeirra slagorða sem mótmælendur héldu á lofti í París og öðrum borgum landsins. Spennan var sýnu mest í höfuðborginni þar sem eldar voru kveiktir, meðal annars í bíl. Lögreglan brást við með því að skjóta táragasi til að dreifa úr mannfjöldanum.

Á það hefur verið bent að ef lögin hefðu þegar tekið gildi hefðu fjölmiðlar sennilega aldrei getað birt myndskeiðið þar sem fjórir lögreglumenn láta höggin dynja á upptökustjóranum Michel Zecler. Lögreglumennirnir hafa verið settir af.

Margt bendir til þess að stjórnvöld ætli að láta undan þrýstingi frá almenningi  en forsætisráðherrann Jean Castex greindi frá því í dag að hann ætlaði skipa nefnd til að endurskrifa löggjöfina.