
Myndskeiðið vakti hörð viðbrögð. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði það til skammar fyrir Frakkland. Það hefur jafnframt vakið upp enn frekari spurningar um hvort kynþáttahyggja innan lögreglunnar í Frakklandi sé kerfislæg.
„Lögreglan alls staðar - réttlæti hvergi,“ voru meðal þeirra slagorða sem mótmælendur héldu á lofti í París og öðrum borgum landsins. Spennan var sýnu mest í höfuðborginni þar sem eldar voru kveiktir, meðal annars í bíl. Lögreglan brást við með því að skjóta táragasi til að dreifa úr mannfjöldanum.
Á það hefur verið bent að ef lögin hefðu þegar tekið gildi hefðu fjölmiðlar sennilega aldrei getað birt myndskeiðið þar sem fjórir lögreglumenn láta höggin dynja á upptökustjóranum Michel Zecler. Lögreglumennirnir hafa verið settir af.
Margt bendir til þess að stjórnvöld ætli að láta undan þrýstingi frá almenningi en forsætisráðherrann Jean Castex greindi frá því í dag að hann ætlaði skipa nefnd til að endurskrifa löggjöfina.