Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Er draumurinn um sjálfstæða Palestínu úti?

epa08564244 Palestinian protester holding Palestine's flag as he argues with Israeli soldiers as they try to reach their lands during a demonstration against Israel's plans to annex parts of the occupied West Bank in the village of Hares  near the northern West Bank city of Salfit, 24 July 2020.  EPA-EFE/ALAA BADARNEH
 Mynd: EPA
Áratugum saman hafa Palestínumenn barist fyrir sjálfstæði sínu. Þeim hefur orðið lítið ágengt og í valdatíð Donalds Trump Bandaríkjaforseta virðist draumurinn um sjálfstætt ríki jafnvel orðinn enn fjarlægari. Eru Palestínumenn orðnir einir í baráttunni? Honeida Ghanim, fræðikona frá Ramallah, segir að þau verði halda í vonina, það sé ekki valkostur að gefast upp.

Staða Palestínu hefur áratugum saman verið ágreiningsefni. Með eða á móti? Tveggja ríkja lausn? Hvað verður um þær milljónir Palestínumanna sem hafa hrakist á flótta frá stofnun Ísraelsríkis 1948? Hvað á að gera við landtökubyggðir Ísraela á Vesturbakkanum og fólkið sem þar býr? Hvað á að gera við Jerúsalem, borgina heilögu, sem báðar þjóðir telja sína höfuðborg? Vandinn er ekki að fara neitt og engin lausn virðist í sjónmáli.

Skipting Palestínu

Sameinuðu þjóðirnar ákváðu eftir seinni heimsstyrjöldina að skipta landsvæðinu sem við þekkjum í dag sem Ísrael og Palestínu á milli gyðinga og araba. UN Partition Plan for Palestine eða áætlun Sameinuðu þjóðanna um skiptingu Palestínu var samþykkt á allsherjarþingi samtakanna 1947. Gyðingar áttu að fá 56% af landsvæðinu en arabar 45%.

„Ímyndið ykkur að einhver kæmi til Íslands og segði: Heyrið, við bjuggum hér fyrir þrjú þúsund árum, þið skulið fara og finna ykkur nýtt heimaland.“ segir Honeida Ghanim, palestínsk fræðikona sem við ræðum meira við síðar í þessum pistli.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Áætlun Sameinuðu þjóðanna um skiptingu Palestínu frá 1947.

Gyðingar samþykktu skiptingu Sameinuðu þjóðanna á Palestínu en það gerðu arabar ekki. Þeim þótti illa að sér vegið að fá minna landsvæði þrátt fyrir að vera mun fleiri og ráða yfir langmestu landsvæði fyrir. Þá þótti þeim landgæði lítil á þeim svæðum sem áttu að falla þeim í skaut. 

Og til þess að gera langa og flókna sögu mjög, mjög stutta hafa þjóðirnar tvær deilt um landsvæðið allar götur síðan og háð um það fjölda stríða og átaka. Allt frá Sex daga stríðinu árið 1967 hefur Vesturbakkinn verið undir hernámi Ísraelshers sem stjórnar því hver þar kemur og fer. 

Meiri hluti ríkja viðurkennir þegar fullveldi Palestínu

Rúmlega 70% allra ríkja sem eiga aðild að Sameinuðu þjóðunum hafa þegar viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki, alls 136 lönd. Nánast öll eru í Asíu, Afríku og Suður-Ameríku en í þessum hópi eru þó einnig nokkur Evrópuríki. Nokkur fjöldi ríkja í Austur-Evrópu viðurkenndi sjálfstæði Palestínu árið 1988, sama ár og frelsissamtök Palestínu lýstu yfir sjálfstæði. Litla Ísland var svo fyrst ríkja í Vestur- og Norður-Evrópu til þess að viðurkenna fullveldi Palestínu, í desember 2011. Nágrannar okkar í Svíþjóð gerðu svo slíkt hið sama þremur árum síðar. 

En fjöldi ríkja sem eru tilbúin að viðurkenna fullveldi Palestínu virðist litlu máli skipta þegar helsti bandamaður Ísraels er valdamesta ríki heims.  

Samband Bandaríkjanna og Ísraels hefur lengi verið sterkt. Til dæmis hefur Ísrael lengi verið það ríki sem fær mesta aðstoð frá Bandaríkjunum. Frá 2007 hefur þessi stuðningur nánast eingöngu verið í formi hernaðaraðstoðar. Þá hafa Bandaríkjamenn margoft tekið upp hanskann fyrir Ísrael þegar mál tengd Ísrael og Palestínu koma inn á borð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. 

Bandaríkin eru eitt fimm ríkja sem hafa neitunarvald í öryggisráðinu. Meira en fjörutíu sinnum hafa Bandaríkin nýtt neitunarvaldið þegar önnur ríki hafa lagt fram tillögur sem gagnrýna framferði Ísraels gegn Palestínu. Sumar þeirra hafa snúið að landtökubyggðum Ísraela. Landtökubyggðirnar eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum. Ríki má ekki koma upp byggð á landsvæði sem það hefur hernumið og flytja þangað fólk. En landtökubyggðir Ísraela má samt finna vítt og breitt um Vesturbakkann, iðulega uppi á hæðum í kringum palestínsk þorp og borgir en einnig á landi sem er ríkt af auðlindum.

Landtökubyggðirnar hafa lengi verið eitt helsta deilumálið og margir fræðimenn eru sammála um að þær séu það sem stendur helst í vegi fyrir því að samkomulag náist um tveggja ríkja lausn. Forsetar Bandaríkjanna hafa stundum beðið stjórnvöld í Ísrael kurteislega um að hætta að byggja þær. 

Það er óhætt að segja að Trump og ríkisstjórn hans hafi svo breytt um stefnu. Fyrir ári tilkynntu bandarísk stjórnvöld að þau teldu að landtökubyggðirnar á hernumdu svæðunum væru ekki brot á lögum. Mike Pompeo utanríkisráðherra fór til Ísraels í síðustu viku. Hann lét sér ekki nægja að funda með Benjamín Netanjahú forsætisráðherra heldur fór hann í heimsókn í landtökubyggð, fyrstur hátt settra embættismanna í Bandaríkjunum. 

Pompeo ítrekaði afstöðu Bandaríkjanna gagnvart landtökubyggðunum og sagði að stefna þeirra hefði beinlínis verið röng fram að þessu. Hann fór líka á Gólanhæðir sem Ísraelar tóku hernámi af Sýrlendingum í Sex daga stríðinu. Bandaríkjastjórn viðurkenndi innlimun Gólanhæða í Ísrael í mars í fyrra. Ríkisstjórn Donalds Trump hefur tekið fleiri umdeildar ákvarðanir sem snúa að Ísrael. Það þarf ekki að koma neinum á óvart að mörg þeirra verka mæltust illa fyrir í Palestínu. 

Leið Palestínumanna til sjálfstæðis þrengist og landsvæðið sem þeim stendur til boða verður sífellt minna. 

Samt virðast þeir ekki gefast upp. Hvernig meta Palestínumenn stöðuna í dag? Við hringdum til Ramallah og spurðum Honeidu Ghanim sem er doktor í félags- og mannfræði. Hún segir að barátta Palestínumanna hafi breyst hægt og rólega. Frá 1967 hafi Palestínumenn þokast í átt að því að samþykkja skiptingu landsvæðisins. Þeir hafi áttað sig á að þeir hefðu ekki völd til þess að krefjast mikils. 

Kort af Palestínuríki frá 1917 fram að áætlun Trumps og Netanyahu um frið í Palestínu.
 Mynd: Al Jazeera
Mynd sem sýnir skiptingu landsvæðis sem hefur boðist Palestínumönnum í gegnum tíðina.

Með sjálfstæðisyfirlýsingu Palestínu 1988 var tveggja ríkja lausnin orðin opinbert markmið og með því var tilvist Ísraelsríkis viðurkennd án þess að það væri sagt með berum orðum.

Ghanim kallar það sögulega eftirgjöf af hálfu Palestínumanna sem var veganestið í viðræður sem enduðu með Óslóarsamningnum sem átti að binda enda á deilurnar. Þarna hafi Palestínumenn verið búnir að sætta sig 1967 landamærin svokölluðu, sem vísar til skiptingu svæðisins eftir Sex daga stríðið, sem gefur þeim 22 prósent af landsvæðinu. 

En Óslóarsamkomulagið varð engin lausn. Frá því að Yitzhak Rabin var myrtur hefur Ísrael meira og minna verið stjórnað af hægri flokkum langt til hægri á hinum pólitíska skala. Rabin var forsætisráðherra Ísraels þegar samkomulagið var gert, hann var myrtur af hægri öfgamanni sem var á móti samkomulaginu. 

PRIME MINISTER YITZHAK RABIN MEETING IN CASABLANKA WITH PLO CHAIRMAN YASSER ARAFAT.ראש הממשלה יצחק רבין בפגישתו עם יו"ר אש"ף יאסר עראפת בקזבלנקה שבמרוקו.
 Mynd: Government Press Office (Israel) - Wikimedia Commons - https://comm
Yasser Arafat, þáverandi leiðtogi PLO og Yitzhak Rabin þáverandi forsætisráðherra Ísraels.

Byggja stöðugt á landi Palestínumanna

Samkvæmt Óslóarsamkomulaginu var Vesturbakkanum skipt upp í þrjú yfirráðasvæði, eitt sem Palestínumenn eiga að ráða yfir, annað þar sem Palestína og Ísrael eiga að fara með sameiginlega stjórn og svo þriðja svæðið sem Ísraelar ráða algjörlega yfir og það er um 60 prósent af Vesturbakkanum. 

Ghanim segir að þessi 60 prósent sem Ísraelar ráða yfir á Vesturbakkanum hafi svo orðið að eins konar landamærum, þar reisa Ísraelar landtökubyggðir og þangað flytja Ísraelar. Ísraelsk stjórnvöld hafi þannig hægt en örugglega breytt samsetningu íbúa á Vesturbakkanum sem grafi markvisst undan tveggja ríkja lausninni. 

Nú búa nærri 750 þúsund í landtökubyggðum á Vesturbakkanum, innan um þrjár milljónir Palestínumanna. Heimsókn Pompeos í landtökubyggð er þýðingarmikil að mati Honeidu. „Í stað þess að segja að þær séu ólöglegar og beita Ísrael þvingunum kom valdamesta ríki heims og sagði: Þetta er ekki hernám, þetta er þeirra heimaland.“ 

Auk landtökubyggða hafa Ísraelsmenn reist múr á landamærum Vesturbakkans og Ísraels. Í Ísrael er hann kallaður öryggismúr, Palestínumenn kalla hann aðskilnaðarvegg. Þá eru eftirlitstöðvar hér og þar um Vesturbakkann sem ísraelskir hermenn manna og stöðva fólk. „Stundum þurfum við að bíða í margar klukkustundir á eftirlitsstöðvunum á leið okkar til eða frá vinnu“, segir Ghanim. Hernámið sé alltumlykjandi í lífi Palestínumanna. 

Ghanim segir að Palestínumönnum finnist þeir hafa reynt allt. Frá hernaði til friðsamlegra lausna. Þeirra upplifun sé að þeir hafi brugðist samviskusamlega við óskum alþjóðasamfélagsins síðustu ár í von um að tveggja ríkja lausninni verði loks framfylgt. „Í stað tveggja ríkja lausnar sitjum við uppi með innlimun landtökubyggða í Ísrael sem einu tillöguna á borðinu,“ segir hún. 

Þar vísar hún til hins svokallaða samkomulags aldarinnar sem Trump og stjórn hans kynntu með viðhöfn í byrjun árs. Hallgrímur Indriðason fjallaði ítarlega um samkomulagið í Heimskviðum. Í þeirri umfjöllun sagði Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í nútímasögu Mið-Austurlanda, að samkomulagið þýddi í raun yfirtöku Ísraels á landi Palestínu. 

Trump afrekaði fleira á árinu. Fyrir tilstilli Bandaríkjastjórnar skrifuðu þrjú arabaríki undir friðarsamninga við Ísrael; Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein og Súdan. Þau eru þar með komin í hóp með Egyptalandi og Jórdaníu sem gerðu síkt hið sama 1979 og 1994. 

Palestínumönnum finnst þeir sviknir og einir eftir í baráttunni, segir Ghanim. Hún segir að Trump hafi reynt að uppræta og rífa í tætlur hugmyndir um fullvalda Palestínu. En nú sjáum við fram á valdaskipti í Hvíta húsinu. Hverju mun það breyta fyrir Palestínumenn? Binda þeir miklar vonir við Joe Biden? „Fólk hefur miklar væntingar, en ekki ég sjálf,“ segir Ghanim. Hún tekur fram að Palestínumenn viti að Bandaríkin eigi fullt í fangi með sín eigin vandamál núna en meðal fyrstu skilaboðanna sem hafa komið frá teymi Bidens varðandi Ísrael og Palestínu sé óvissa um hvort sendiráðið verður fært aftur frá Jerúsalem til Tel Aviv. 

epaselect epa04132094 US Vice President Joe Biden attends a press conference after a meeting with Latvian President Andris Berzins and Lithuania's president Dalia Grybauskaite in Vilnius, Lithuania, 19 March 2014. Biden reassured Poland and the Baltic states on 19 March that the United States would protect them from any aggression such as the actions the Kremlin has taken in Crimea. Biden's visit comes as violence against Ukraine soldiers stationed in Crimea was on the rise. At least one Ukrainian soldier and a member of the so-called self defence force have been killed.  EPA/VALDA KALNINA
 Mynd: EPA
Joe Biden tekur brátt við lyklavöldum í Hvíta húsinu.

„Þau eru ekki viss. Hvaða skilaboð eru það til Palestínumanna? Sjáið þið til, allar friðsamlegar leiðir sem þið hafið reynt síðustu 10 ára eru tilgangslausar. Reynið eitthvað annað,“ segir Ghanim. 

Hún segir að enginn geri sér vonir um að stjórn Bidens finni lausn á deilunni heldur komi kjör hans kannski til með að létta Palestínumönnum aðeins lífið, til dæmis með því að endurvekja fjárveitingar til flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna í Palestínu. Þá reyni stjórn Bidens kannski að stöðva innlimun landtökubyggða. Ghanim hefur þó enga trú á því að Ísraelar verði beittir alvöru þrýstingi til þess. 

Ekki valkostur að gefast upp

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist Palestínumönnum, önnur arabaríki hafa brugðist þeim, segir Ghanim. Meira en sjötíu ár eru liðin frá stofnun Ísraelsríkis. Palestínumenn eiga ekki enn sitt fullvalda ríki. Draumurinn um það virðist fjarlægjast ef eitthvað er. Er Ghanim bjartsýn á breytingar á næstunni?

Það er ekki í boði að gefast upp, þótt útlitið sé svart núna, segir hún. Palestínumenn vilji gefa börnum sínum von um að þau eigi framtíð þar sem þau fæddust, í sínu heimalandi. 

Ég spurði Ghanim hvort hún hefði hugleitt sjálf að hætta, gefast upp og flytja. „Nei“, svarar hún strax. „Það er ekki valkostur fyrir neitt okkar.“ Hvers vegna ekki? „Meirihluti Palestínumanna urðu flóttafólk 1948. Við vitum hvað það er að vera flóttamaður. Það er ekki líf sem við viljum fyrir börnin okkar.“