Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Ég glotti nú bara út í annað“

28.11.2020 - 10:45
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir er ekki með fóbíu fyrir líkamsræktarstöðvum eins og Björn Leifsson eigandi World Class hélt fram. Hann stundar sjálfur reglulega líkamsrækt, meira að segja í World Class.

Í samtali við Morgunblaðið var haft eftir Birni að Þórólfur tali á þann hátt að hann hafi augljósa fóbíu fyrir líkamsræktarstöðvum. Í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í gær sagði Þórólfur það hinsvegar af og frá, hann er enda sjálfur dyggur viðskiptavinur Bjarnar.

Ég glotti nú bara út í annað því ég er búinn að vera viðskiptavinur World Class í mörg ár og ég borga reglulega gjöld þar inn með góðu geði.

Í ár hafi hann greitt heilt árgjald með glöðu geði án þess að hafa nokkurntíma stigið fæti inn fyrir hússins dyr.

Það er fjarri lagi að ég hafi fóbíu fyrir líkamsræktarstöðvum. Ég lít þannig á málin að það er ákveðin smithætta þar eins og komið hefur upp í rakningu hjá okkur og rakningu erlendis og áhættumati. Það er bara það sem við leggjum til grundvallar. Ég hef ekkert á móti líkamsræktarstöðvum nema síður sé.

Á morgun gengur aðventan í garð og Þórólfur minnir landsmenn á að halda áfram að fara varlega.

Við erum á viðkvæmum tíma varðandi þennan blessaða faraldur þannig að ég biðla til fólks að halda áfram þessari góðu vinnu sem þau hafa verið að inna af hendi og passa sig, sérstaklega þessar hópamyndanir.

Þó það sé gaman að hittast á aðventunni og halda boð eins og venjulega ber að hafa í huga að slík veisluhöld geti haft mjög afdrifaríkar afleiðingar.

Rætt var við Þórólf Guðnason í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

juliame's picture
Júlía Margrét Einarsdóttir
vefritstjórn
hrafnhih's picture
Hrafnhildur Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður