Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Dýrasti skilnaður“ sögunnar fyrir dóm í næstu viku

28.11.2020 - 15:14
Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Skilnaður, sem breska blaðið Guardian segir þann „dýrasta í sögunni“, kemur fyrir dómstól í Lundúnum í næstu viku. Þar verður tekist á um ofursnekkjuna Lúnu, einkaþotu og listaverk eftir listamenn á borð við Mark Rothko, Andy Warhol og Damien Hirst. Í aðalhlutverkum verða olígarkinn Farkhad Akhmedov og Tatiana Akhmedova, fyrrverandi eiginkona hans. Hún sakar hann og son þeirra um að hafa komið undan eignum upp á hundruð milljóna til að komast hjá greiðslum til hennar.

Í umfjöllun Guardian kemur fram að Akhmedova saki eiginmanninn fyrrverandi um að hafa fært eignir yfir á nafn sonar þeirra. Feðgarnir neita sök og segja hana hafa verið meðvitaða um eignatilfærslunar. Meðal eigna sem sonurinn fékk að gjöf var lúxúsíbúð í One Hyde Park sem metin er á þrjátíu milljónir punda.

Guardian segir Akhmedovu meðal annars hafa fengið úrskurði hjá dómstólum til að gera húsleit í híbýlum sonar síns. Þar var meðal annars lagt hald á nokkrar leikjatölvur.  Þá var tæknifyrirtækinu Google  gert að afhenda afrit af tölvupóstum hans, að því er fram kom á vef Financial Times

„Heiftin í henni og hefndarþorstinn gerir það að verkum að við munum aldrei ná sáttum, sama hvað gerist fyrir dómstólum“ hefur Guardian eftir syninum Temur sem er 27 ára. Eignir hans hafa verið kyrrsettar og hann telur sig eingöngu geta eytt 3.000 pundum á viku eða rúmri hálfri milljón.  „Á meðan húsleitinni stóð sendi ég henni skilaboð og spurði hana hvað í fjandanum hún væri að gera?“

Akhmedova telur sig eiga rétt á 453 milljónum punda vegna skilnaðarins en Temur telur móður sína seilast of djúpt í vasa föður síns.  Þau hafi í reynd skilið fyrir 20 árum eftir að hún átti í ástarsambandi við sér yngri mann og hún eigi í raun ekki rétt á krónu. Dómstóll í Bretlandi komst reyndar að þeirri niðurstöðu að fullyrðingin um þann skilnað ætti ekki við rök að styðjast; skilnaðarskjölin væru líklega fölsuð.

Temur fullyrðir að faðir hans hafi boðið henni 100 milljónir punda þegar þau skildu en hún hafi kosið að leita til dómstóla í Bretlandi. Sem komst að þeirri niðurstöðu að hún ætti rétt á 41,5 prósenta hlut í auðæfum fjölskyldunnar en þau eru metinn á einn milljarð punda.

Á ýmsu hefur gengið í skilnaðinum. Akhmedov leitaði meðal annars til dómstóls í Dúbaí til að koma í veg fyrir að eiginkonan fyrrverandi fengi snekkjuna Lúnu. Dómurinn taldi hann eiga snekkjuna en lögmaður hennar var á öðru máli og sagði dómstóla á Englandi hafa úrskurðað um eignarhald hennar, að því er fram kom á vef BBC.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV