Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aukinn áhugi á sólarlandaferðum eftir jákvæðar fréttir

28.11.2020 - 18:23
Mynd: Kayjak / Kayak
Ferðaskrifstofur hafa orðið varar við aukinn áhuga á sólarlandaferðum, eftir að jákvæðar fréttir af bóluefnum fóru að berast. Neytendasamtökin segja að réttur neytenda sé skýr ef þeir vilja hætta við ferð, eða ef hún er felld niður.

Nú þegar skammdegið hellist yfir Íslendinga af fullum þunga, veðrið fer stöðugt versnandi og landið er hálflokað gætu margir Íslendingar eflaust hugsað sér að fara í sólarlandaferð. En er það yfirleitt hægt á næstunni?

„Já það er hægt að kaupa ferðir hjá okkur. Við erum að stefna á að byrja að fljúga 1. febrúar, þá ætlum við að fara til Tenerife og Kanarí,“ segir Ingibjörg Elsa Eysteinsdóttir, forstöðumaður hjá Úrvali útsýn.

En þið hafið ákveðið að fljúga ekki um jólin og áramótin?

„Já, við tókum ákvörðun um að fara ekki til Tenerife eða Kanarí um jólin. Við mátum það þannig að ástandið væri ekki nægjanlega gott,“ segir Ingibjörg.

100% endurgreiðsla

Hjá Heimsferðum fengust þær upplýsingar að hætt hafi verið við ferðir um jólin og í janúar. Fólk hafi ýmist fengið endurgreitt eða ferðir þess verið færðar. Stefnt sé að því að byrja að fljúga í sólina í febrúar.

Hjá ferðaskrifstofunni VITA fengust þær upplýsingar að flogið verði til Tenerife og Kanaríeyja fyrir jól. Allir sem keyptu sæti í þær ferðir hafi fengið tækifæri til þess að færa þau og fara síðar. Frá og með byrjun janúar verði svo reglulegar ferðir í sólina. Þeir sem bóka í þær ferðir geti hætt við og fengið fulla endurgreiðslu, eða breytt ferðinni sér að kostnaðarlausu.

En getur Úrval útsýn ábyrgst að farið verði í þær ferðir sem auglýstar eru frá 1. febrúar?

„Eins og staðan er í dag, þá eru þær á áætlun og við stefnum á að fara,“ segir Ingibjörg. „Það hefur margt breyst síðustu mánuði og við höfum þurft að fella niður ferðir. Ef það gerist hefur viðskiptavinurinn rétt á 100% endurgreiðslu, sem hann fær. Vill hann eiga inneign eða ferðast síðar? Þannig að kúnninn er aldrei að tapa neinum peningum.“

Geta afpantað

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, sagði í samtali við fréttastofu í dag að fólk þyrfti að hafa í huga að aðstæður og reglur varðandi sóttvarnir eru mismunandi í hverju landi, og geta breyst fyrirvaralítið. Neytendasamtökin hvetji fólk til að kanna vel skilmála ferðaskrifstofa, einkum skilmála sem taka á óvæntum uppákomum. Breki segir að ef ferðaskrifstofa fellir niður ferð eigi neytendur að fá fulla endurgreiðslu. Þá geti neytendur afpantað pakkaferð og fengið fulla endurgreiðslu vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Hjá Heimsferðum og VITA fengust þær upplýsingar að sala á sólarlandaferðum hafi tekið að glæðast eftir að jákvæðar fréttir af bóluefni fóru að berast. Ingibjörg hefur sömu sögu að segja.

„Það er að tikka inn bókun og bókun og fyrirspurnir fyrir sumarið eru byrjaðar að berast,“ segir hún.