Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Áfrýjun lögmanna Trumps vísað frá í Pennsylvaníu

epa08845162 US President Donald J. Trump speaks in the Diplomatic Room of the White House on Thanksgiving in Washington, DC, USA, 26 November 2020.  EPA-EFE/Erin Schaff / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Áfrýjunardómstóll í Fíladelfíuborg hafnaði í dag málatilbúnaði lögfræðingateymis Donald Trumps, Bandaríkjaforseta, sem freistaði þess að fá úrslit forsetakosninganna í Pennsylvaníu ógilt og hindra þannig staðfestingu á kjöri Joes Bidens. Dómararnir þrír sem réttuðu í málinu töldu það ekki tækt til meðferðar, þar sem lögmennirnir hefðu hvorki lagt fram neinar tilteknar sakargiftir né sönnunargögn af nokkru tagi, sem breyttu nokkru um úrskurð í sama máli á lægra dómstigi.

Þessi ákvörðun dómaranna er enn eitt bakslagið í seglin hjá forsetanum og hans mönnum, sem róa að því öllum árum að fá kosningaúrslitunum frá 3. nóvember hnekkt.

Segja málið byggt á sandi

„Frjálsar og heiðarlegar kosningar eru frumforsenda lýðræðisins," skrifaði dómarinn Stephanos Bibas í dómsorði þremenninganna. „Ásakanir um óheiðarleika eru alvarlegar. En það að kalla kosningar óheiðarlegar, gerir þær ekki óheiðarlegar. Ákærur kalla á staðhæfingar um ákveðin brot, og svo sannanir fyrir þeim, en hér er hvorugu fyrir að fara,“ segir í dómsorðinu.

Trump og lögfræðingar hans hafa höfðað tugi mála í kjölfar kosninganna, sem öll miða að því að fá úrslitum í einstaka kjördæmum og jafnvel heilu ríkjunum hnekkt, en ekki haft erindi sem erfiði. Joe Biden fékk ríflega sex milljónum fleiri atkvæði en Trump á landsvísu, og uppskar 306 kjörmenn á móti 232 kjörmönnum Trumps. Kjörmennirnir koma saman 14. desember til að staðfesta úrslit kosninganna.