Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Ætli ég sé ekki orðinn Íslandsmeistari í minnisblöðum“

28.11.2020 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þau smit kórónuveirunnar sem greinst hafa síðustu daga má nær öll rekja til saklausra hópamyndana. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir þetta til marks um hversu hratt smitin geta dreifst ef veiran fer af stað.

„Þetta er ekki nógu gott,“ segir Þórólfur um tölur dagsins. 21 smit greindist í gær en meirihlutinn var í sóttkví við greiningu. „Þetta er nú bara svipaðar tölur og við sáum í gær. Það voru tekin heldur fleiri sýni í gær og það eru heldur fleiri í sóttkví en þetta er nánast það sama.

„Þetta segir okkur bara það að þetta er um það bil í línulegum vexti. Auðvitað er það ekki gott heldur. Það væri verra ef þetta væri áfram í veldisvexti,“ segir Þórólfur.

„Þegar við erum að skoða rakningargögnin þá tengist þetta tiltölulega fáum, sakleysislegum hópamyndunum, innan og utan fjölskyldna þar sem fólk passaði sig ekki nógu vel. Það sýnir bara hvað það þarf lítið til.“

„Þess vegna erum við áfram að biðla til fólks að passa sig á þessum hópamyndunum; Að vera ekki að hittast, innan fjölskyldna, utan fjölskyldna. Þetta er sá tími sem fólk vill vera að koma saman og gera ýmislegt. En það getur haft þessar afleiðingar. Smitið er fljótt að breiðast út. Það getur breiðst út með ógnarhraða út frá slíkum samkomum.“

Mjög auðvelt að fara í sýnatöku

Þórólfur leggur enn og aftur áherslu á að fólk sé heima ef það finnur fyrir einkennum COVID-19, fara svo í sýnatöku og vera ekki hrætt við það. „Það er mjög auðvelt að fara í sýnatöku. Maður fær tíma og sýni einn, tveir og þrír. Það á ekki að vera neitt íþyngjandi í því.“

Þeim fjölgar sem koma í einkennasýnatöku milli daga. Spurður hvort það geti verið vísbending um eitthvað segir Þórólfur að það sé erfitt að segja. Aðrar pestir séu líka að ganga.

„Það sem sýnir líka að þetta sé í vexti er að hlutfall þeirra sem er að fara í sýnatöku sem er með einkenni, það hlutfall er að aukast. Það var komið undir 1% núna fyrir viku síðan. En núna er það aftur að skríða yfir prósentið og nálgast tvö prósent. Þegar útbreiðslan var hvað mest þá fór þetta upp í fimm prósent. Það eru svona vísbendingar um það að þetta sé að skríða aftur upp á við, því miður.“

Hlutfall jákvæðra bendir til þess að fleiri sem finna fyrir einkennum séu með COVID-19 en ekki aðrar kvefpestir sem eru að ganga. „Það er líka vísbending um vaxandi útbreiðslu.“

Rakning gengur nokkuð vel

Þórólfur segir rakningu á þeim smitum sem hafa greinst undanfarna daga ganga vel. Eitthvað standi út af, eins og gerist og gengur. Stundum er erfitt að ná í fólk og aðrir eru ekki ýkja samvinnuþýðir.

„En ég held að í heildina þá gangi þetta nokkuð vel,“ segir Þórólfur. „Þetta er lykill í því hvað við erum að gera. Bæði til að reyna að sjá mynstrið í því hvar fólk er að sýkjast og hvernig má rekja smitið, í hvaða atburði og svo framvegis. Þannig að þetta gegnir alveg gríðarlega mikilvægu hlutverki og við sjáum núna hvar hættuspilin liggja og hvar uppruninn er.“

Þórólfur segir að það sé erfitt að segja hvort almannavörnum hafi tekist að ná utan um þau smit sem hafa greinst. „Vandinn er náttúrlega líka sá að það tekur svolítinn tíma að veikjast. Það tekur upp undir viku og fólk er farið að smita áður en það veikist. Það getur verið snúið að eiga við þetta.“

Réttast að fara hægt í breytingar

Þórólfur hefur ekki tekið endanlega ákvörðun um hvað hann ætlar að leggja til við ráðherra að taki við þegar þær reglur sem nú gilda renna út 2. desember. Hann telur að réttast sé að fara hægt í breytingar.

„Þegar allt leit bara mjög vel út og þetta virtist vera að stefna í góða átt þá sagði ég að við þyrftum að fara hægt í tilslakanir svo við fengjum ekki bakslag. Núna er staðan orðin önnur. Nú erum við að stefna í öfuga átt. Og þá er enn minna rúm fyrir tilslakanir. Ég held að maður eigi að vera svolítið conservatívur í því.“

Hann hyggist ætla að skila nýjum tillögum til ráðherra núna um helgina. „Ég er alltaf að búa til ný minnisblöð. Ætli ég sé ekki orðinn Íslandsmeistari í minnisblöðum,“ segir Þórólfur glettinn. „Ég er svona að hugsa málin og verð snöggur. Ég er í stöðugu sambandi við ráðherra. Ég er að ræða málin á víðum grundvelli.“

Erfitt að hafa fyrirsjáanleika þegar enginn er fyrirsjáanleikinn

Spurður hvort hann geti tekið tillit til sjónarmiða atvinnulífsins sem vill fá svigrúm til að undirbúa breyttar reglur, segir Þórólfur að erfitt geti verið að taka það með í reikninginn.

„Auðvitað er þetta mjög erfitt og atvinnulífið hefur kallað eftir fyrirsjáanleika varðandi sína starfsemi. Ég get alveg tekið undir það að það væri mjög óskandi ef það væri hægt. Þessi veira – ég held að það sjái það allir – hún er ófyrirsjáanleg og setur mjög mikið strik í reikninginn. Á þeim grunni er mjög erfitt að vera með fyrirsjáanleika fyrir aðra þegar maður er sjálfur staddur í miðjum ófyrirsjáanleika.“