Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Abiy segir hernaði í Tigray lokið með fullnaðarsigri

28.11.2020 - 23:15
Tigray people who fled the conflict in Ethiopia's Tigray region, stand on a hill top over looking Umm Rakouba refugee camp in Qadarif, eastern Sudan, Thursday, Nov. 26, 2020. Ethiopia's prime minister said Thursday the army has been ordered to move on the embattled Tigray regional capital after his 72-hour ultimatum ended for Tigray leaders to surrender, and he warned the city's half-million residents to stay indoors and disarm. (AP Photo/Nariman El-Mofty)
Nokkur úr hópi þeirra tuga þúsunda sem flúðu Tigrayhérað yfir landamærin til Súdan. Mynd: AP
Eþíópíuher hefur náð borginni Mekelle á sitt vald og er aðgerðum hersins í Tigrayhéraði þar með lokið. Þetta sagði Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu í kvöld. Ef rétt reynist þá hefur endi verið bundinn á rúmlega þriggja vikna átök í héraðinu, sem kostað hafa hundruð og jafnvel þúsundir mannslífa og hrakið tugi þúsunda á flótta.

„Það gleður mig að tilkynna að við höfum lokið og hætt hernaðaraðgerðum í Tigrayhéraði,“ skrifaði forsætisráðherrann á Twitter í kvöld. Klukkustundu fyrr hafði hann greint frá því, að stjórnarherinn hefði tryggt yfirráð sín í héraðshöfuðborginni Mekelle.

Heita því að berjast til síðasta manns

Leiðtogi hersveita Þjóðfrelsisfylkingar Tigrayhéraðs (TPFL), sem hafa staðið í stríði við Eþíópíuher frá 4. nóvember, lýsti því hins vegar yfir að baráttunni væri hvergi lokið. „Grimmleiki [stjórnarhersins] gerir ekki annað en styrkja okkur í þeim ásetningi að berjast gegn þessum innrásarmönnum þar til yfir lýkur,“ segir í yfirlýsingu Debretsions Gebremichaels, leiðtoga Þjóðfrelsisfylkingarinnar.  Hann segir jafnframt að þótt hreyfingin hafi dregið hersveitir sínar frá Mekelle og nágrenni jafngildi það ekki uppgjöf.

Lögregla leitar leiðtoga TPFL

Forsætisráðherrann Abiy sagði í sinni yfirlýsingu, að lögregla muni halda áfram að leita uppi leiðtoga Þjóðfrelsisfylkingarinnar og draga þá fyrir dóm. Abiy hefur ítrekað talað um hernaðinn í Tigrayhéraði sem lögregluaðgerð gegn glæpamönnum, frekar en stríðsaðgerðir gegn uppreisnarmönnum.

Ekki er ljóst hvort einhverjir úr hópi leiðtoga TPFL hafi gefist upp og raunar hefur fréttastofum reynst örðugt að afla áreiðanlegra frétta frá Tigrayhéraði frá upphafi átakanna, þar sem fjarskiptasamband hefur að mestu legið niðri.

Misstu völdin 2018 og berjast nú fyrir sjálfstæði

Þjóðfrelsishreyfing Tigrayhéraðs, TPFL, var leiðandi valdaflokkur í Eþíópíu um áratugaskeið en missti völdin í hendur bandalags stjórnarandstöðuflokka í kosningum 2018. Frá þeim tíma hafa leiðtogar hreyfingarinnar lagt síaukna áherslu á aukna sjálfstjórn Tigray-héraðs, eitt tíu sjálfstjórnarhéraða Eþíópíu.