Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vill banna sölu á stórum flugeldum til almennings

27.11.2020 - 09:33
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur telur ákjósanlegt að sala á stórum flugeldum til almennings verði bönnuð og að einungis verði leyft að nota slíka skotelda í leyfisskyldum flugeldasýningum. Eftirlitið segir það tímaskekkju að skapaðar séu heilsuspillandi aðstæður af mannavöldum, eingöngu í skemmtanaskyni.

Í drögum að reglugerð sem dómsmálaráðherra birti á samráðsgátt stjórnvalda var lagt til að sölutímabil flugelda yrði stytt og almenningi aðeins leyft að skjóta upp flugeldum í þrjá daga.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur segir í umsögn sinni að það verði erfitt að fylgja eftir takmörkunum. Reynslan hafi sýnt að notkun skotelda fari þegar fram utan leyfilegs tímabils, bæði dagana í kringum áramótin en einnig á öðrum tíma ársins.  Eftirlitið telur því að ganga ætti lengra og gefa sveitarfélögum heimild til að banna notkun skotelda á sínu svæði. 

Eftirlitið segir að ekki sé ásættanlegt að skapa heilsuspillandi aðstæður í þéttbýli með hömlulausri notkun almennings á skoteldum. Í verstu tilvikum geti skapast ástand sem jafnist á við mengun frá náttúruhamförum.  Þá telur eftirlitið að ákjósanlegt væri að banna sölu á stórum flugeldum til almennings og að jafnvel mætti setja takmarkanir á því hvað hver má kaupa mikið af flugeldum.  Það sé „tímaskekkja að skapaðar séu heilsuspillandi aðstæður af mannavöldum, eingöngu í skemmtanaskyni.“

Umsögnin var kynnt á fundi umhverfis-og heilbrigðisráðs borgarinnar í vikunni. Meirihluti ráðsins sagðist í bókun taka heilshugar undir hana. Dapurlegt væri að ekki hafi verið nýtt tækifæri til að fara í áhrifameiri og róttækari breytingar eins og bann á sérstaklega hættulegum skoteldum eða hámarksmagn sem hver má kaupa.  Skammvinnt skemmtanagildi gæti ekki réttlætt það að umhverfi og heilsu manna væri teflt í hættu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Miðflokks töldu það hins vegar ekki hlutverk borgarinnar að ákveða hvers konar flugelda mætti selja. Þá tóku þeir ekki undir þau sjónarmið að takmarka ætti magn á sölu til hvers og eins eða hvaða magn væri flutt inn til landsins.