Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja hækka verð á sætindum af öllu tagi um 20 prósent

Sælgæti í plastbökkum í sælgætisverslun.
 Mynd: Cisco PA - RGBStock
Starfshópur heilbrigðisráðherra, sem ætlað er að móta tillögur um hvernig beita má efnahagslegum hvötum til að efla lýðheilsu, leggur til að skattlagning á sætindi verði aukin verulega með það fyrir augum að hækka sælgætisverð og verð á sykruðum og sætum drykkjum um allt að 20 prósent.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að starfshópurinn hafi skilað ráðherra umfangsmiklum tillögum þar sem meðal annars er lagt til að vörugjöld verði lögð á gos-, svala- og orkudrykki, vatnsdrykki sem innihalda sítrónusýru, hvers kyns sælgæti, orku- og próteinstykki, kex, kökur og annað sætabrauð. Jafnframt er lagt til að virðisaukaskattur á „óhollar vörur á borð við gosdrykki" verði hækkaður úr 11 í 24 prósent.

Telja sannað að verðhækkun skili sér í minni sölu

Í viðauka við skýrslu starfshópsins segir að Alþjóða heilbrigðisstofnunin telji 20 prósenta skatt á óhollustu geta minnkað neysluna um jafn mörg prósent. Einnig hafi íslensk rannsókn sýnt fram á að svokölluð verðteygni gosdrykkja sé 1 prósent, sem þýðir „að fyrir hverja prósentuhækkun á gosi minnkar neyslan um 1%."

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV