
Viðhald á þyrlu Landhelgisgæslunnar tefst enn
„Lítill hluti hópsins var upptekinn við samningaviðræður í gær en aðrir sem búist hafði verið við mættu ekki,“ segir í tilkynningunni. Verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hefur staðið yfir frá 5. nóvember og í gær fór fram langur en árangurslaus fundur milli samninganefnda flugvirkja Landhelgisgæslunnar og ríkisins.
Flugvirkjar hafna fjórðu undanþágubeiðni Gæslunnar
Landhelgisgæslan sendi flugvirkjum bréf í á miðvikudag og hvatti þá til að mæta og sinna skoðun þyrlunnar vegna þess neyðarástands sem nú ríkir. Í vikunni óskaði Landhelgisgæslan jafnframt eftir undanþágu frá verkfallinu til Flugvirkjafélagsins í ljósi alvarleikans, en undanþágubeiðninni var synjað í fjórða sinn.
„Landhelgisgæslan batt vonir við að samningafundur gærdagsins bæri árangur til að unnt væri að fá flugvirkja stofnunarinnar aftur til starfa. Mikið liggur við að koma TF-GRO í flughæft ástand sem allra fyrst og vinna niður uppsafnað viðhald á öðrum loftförum sem gegna veigamiklu hlutverki við leit og björgun á Íslandi,“ segir í tilkynningunni.
Höfnuðu tillögu ríkissáttasemjara
Kjaraviðræðurnar stranda fyrst og fremst á kröfu flugvirkja um tengingu kjarasamninga við aðalkjarasamninga flugvirkja hjá Icelandair. Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Félags flugvirkja, sagði í fréttum í gær að ekki kæmi til greina að slá af þeim kröfum. Félagið hafnaði í gær innanhússtillögu ríkissáttasemjara um að framlengja núgildandi samning til loka næsta árs og gerir kröfu um þriggja ára samning. Með framlengingunni hefðu flugvirkjar Gæslunnar notið góðs af þeim hækkunum sem komu til í aðalkjarasamningi Flugvirkjafélags Íslands og Icelandair.