Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Veirustofnar frá Bretlandi og Frakklandi greinast hér

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
20 greindust með kórónuveiruna í gær. Þar af voru 11 ekki í sóttkví. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir stöðuna enn dálítið ískyggilega og sér engan rökstuðning fyrir því að aflétta takmörkunum. Hann undrast að fólk skuli enn fá að velja tveggja vikna sóttkví fram yfir tvöfalda skimun. Reynslan sýni að smit leki inn í landið með þeim sem velji slíkt.

Sóttvarnalæknir hefur þegar skilað tillögum til heilbrigðisráðherra varðandi næstu skref en núverandi reglugerð á að falla úr gildi 1. desember. Þórólfur Guðnason varaði reyndar við því  á upplýsingafundi í gær að hann gæti skilað nýjum tillögum þar sem vísbendingar væru um að kórónuveirusmitum væri að fjölga á ný. Og miðað við tölur dagsins bendir margt til þess.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, tekur undir áhyggjur Þórólfs. Honum finnist eins og við séum að hreyfast ívið hægar í rétta átt en hann hafði búist við. „Þessi veira virðist vera búin að dreifa sér víðar en við höfðum reikna með.“ 

Hann telur því ljóst að halda verði skrúfunni eins fastri og hún hafi verið upp á síðkastið. Raunar eigi ekki að aflétta neinum takmörkunum að ráði fyrr en við erum komin nær bóluefni. Þrír bóluefnaframleiðendur hafa kynnt fyrstu niðurstöður sína og segir Kári það stórkostlegt afrek hjá þessum iðnaði. Reiknað er með að þessir þrír framleiðendur geti framleitt 5 milljarða skammta samtals á næsta ári. „Sem ætti að nægja til að kveða þennan faraldur í kútinn.“ 

Þriðja bylgja farsóttarinnar hér á landi var að mestu leyti borin uppi af hinni svokölluðu „bláu veiru“ sem greindist fyrst í tveimur frönskum ferðamönnum um miðjan ágúst.  Kári segir hana hafa horfið að mestu en síðan komið aftur upp fyrir nokkrum dögum.  Nú sýni raðgreining líka að veirustofnarnir séu sitt lítið af hvoru. Þeir komi meðal annars frá Bretlandi, Póllandi og Frakklandi. 

Hann bendir á að Ísland sé eyland og þegar búið sé að ná stjórn á faraldrinum eigi að vera hægt að halda honum niðri. Því skilji hann ekki þá afstöðu stjórnvalda að það sé eðlilegt að bjóða fólki áfram uppá tveggja vikna sóttkví og sleppa við skimun. „Mjög oft virðast þeir sem velja tveggja vikna sóttkví vera fólk sem ætlar sér ekki að virða sóttvarnareglur. Að leyfa slíku að gerast er bara of hátt verð.“ 

Hann segir að það þurfi skringilegt ímyndunarafl til að sjá það sé meira mannréttindabrot að skikka fólk í tvöfalda skimun og fimm daga sóttkví en tveggja vikna sóttkví. „Ég hef áhyggjur því reynslan segir okkur að það er leki í gegnum það fólk sem velur sóttkví umfram skimun.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV