Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Töluðu aldrei við okkur“

27.11.2020 - 12:43
Már Vilhjálmsson
 Mynd: RÚV - Ljósmynd
Rektor Menntaskólans við Sund undrast framkomu foreldrahóps sem safnað hefur undirskriftum og gagnrýnt námsfyrirkomulagið. Hann hafi fyrst lesið um málið í fjölmiðlum. Kannanir skólans sýni að kennarar og nemendur séu að gera sitt besta. Árangur og brottfall í MS sé minna en annars staðar.

Rúmlega 100 foreldrar nemenda í Menntaskólanum við Sund hafa skorað á skólann að hefja staðnám fram að jólaleyfi vegna vanlíðanar og verri námsárangurs í fjarnámi. Þeir segja sömu reglur eiga að gilda um grunn- og framhaldsskólanemendur.

Fjallað var um málið í seinni fréttum sjónvarps fyrr í vikunni. Þar sagði Vala Pálsdóttir, móðir nemanda við MS að landlæknir hefði sagt að krakkarnir eigi að vera í skóla. Réttast væri að horfa á það þannig að framhaldsskólanemendur væru flestir hverjir ennþá börn. Best væri að hækka þennan aldur í stað þess að skorða þetta við grunnskóla að hafa framhaldsskólana með í þeim hópi nemenda sem mega mæta í staðnám.

Már Vilhjálmsson, er rektor Menntaskólans við Sund. Hann segist vel skilja áhyggjur foreldra vegna fjarnámsins. Rök og fullyrðingar sem komu hafa fram í umkvörtunum um skólann eigi hins vegar ekki við rök að styðjast. Ekki sé hægt að merkja lakari árangur nemendanna í gögnum skólans, lélegri mætingu eða aukið brottfall. 

„Þeir eru að standa sig feikilega vel þannig að allt tal um annað og svona alhæfingar eru bara hreinlega rangar.“

Úskriftarhlutfall skólans sé 77% sem sé hærra en gengur og gerst auk þess sem meðaleinkunnir séu nú hærri. Brotthvarf frá því í október í fyrra er ekkert meðan nýnema og 2% meðal eldri nemenda sem sé það lægsta á landinu.

„Þannig að taka út mál MS og segja að þar sé staðan verri en annars staðar þá eru menn bara að fabrikkera. Og það versta í þessu öllu er að það er verið að skjóta á kennara sem eru að gera kraftaverk og það er verið að tala niður nemendur sem eru alveg ótrúlega sterkir á þessum erfiðu tímum. Mér finnst það ekki rétt.“ 

Hann undrast að þeir sem stóðu að undirskriftasöfnuninni hafi ekki haft samband við sig.

„Ég las fyrst um þetta á visir.is. Viðkomandi aðilar höfðu ekki haft samband við okkur. Ekki sent okkur póst hvorki á mig né skólann hvorki með fyrirspurnir né gagnrýni eða ósk um útskýringar.

Kanntu einhverjar skýringar á þessu?

„Nei. Ég veit það ekki. Kannski er umræðan farin að litast af því að það er farið að styttast í kosningar og það er komin einhver pólitík í málið. Ég veit það ekki. En kannski er þetta líka bara það að það er náttúrulega hópur í þjóðfélaginu sem er bara orðinn þreyttur og vill að þessu linni en við viljum það náttúrulega öll.“