Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Það er sannarlega svartur föstudagur í dag“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Svartur föstudagur, öryggi landsmanna og verkfallsrétturinn var meðal þess sem kom fram í máli þingmanna þegar þeir gerðu grein fyrir atkvæðum sínum vegna frumvarps Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um lög þar sem bann er lagt við vinnustöðvun flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni.

Frumvarpið var samþykkt á níunda tímanum í kvöld með 42 atkvæðum. Sex voru á móti og fimm sátu hjá. Allir þingmenn stjórnarflokkanna greiddu atkvæði með frumvarpinu og það gerðu einnig þingmenn Miðflokksins, Viðreisnar og Flokks fólksins. Að óbreyttu snúa flugvirkjarnir aftur til starfa í kvöld og er gert ráð fyrir að ein þyrla Gæslunnar verði orðin tiltæk á sunnudaginn. 

Áður en til atkvæðagreiðslu eftir aðra umræðu kom gerðu nokkrir þingmenn grein fyrir atkvæðum sínum. 

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að um væri að ræða þrautalendingu. „Herra forseti. Það er ekki af neinni léttúð sem tekin er ákvörðun um það að setja lög á kjaradeilu. Því að verkfallsrétturinn er launafólki svo sannarlega mikilvægur. Til þess að svo sé gert þarf að teljast fullreynt að samningum verði ekki náð að svo stöddu,“ sagði Steinunn Þóra á Alþingi í kvöld.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins sagði málið snúast um öryggi landsmanna. „Verði þessi lög samþykkt, þá er enn tími til þess að semja fram á nýja árið og hvet ég samningsaðila til að nýta anda jólanna og reyna að ná samningum.“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að vissulega væri um að ræða neyðarástand sem þyrfti að leysa. „Að beita Alþingi á þennan hátt, að skera ríkisstjórnina niður úr snörunni sem hún kom sér í sjálf, er óásættanlegt. Það er sannarlega svartur föstudagur í dag,“ sagði Björn Leví.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sagði ljóst að staðan hefði verið orðin grafalvarleg. „En með afgreiðslu þessa frumvarps liggur nú fyrir að flugvirkjar munu koma strax til starfa og flugrekstur Landhelgisgæslunnar mun því smám saman komast í eðlilegan rekstur og björgunarþyrla verður vonandi til taks í síðasta lagi á sunnudag,“ sagði Áslaug Arna.