Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Spilakassar nútímans eins og rafrænt heróín

27.11.2020 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtök áhugafólks um spilafíkn segja það vera fjarri lagi að fólk sem leggur fé í spilakassa geri það til að styrkja góð málefni. Þeir sem njóti fjárhagslegs ávinnings af rekstri spilakassa misnoti þá sem glíma við spilafíkn.

Samtökin sendu í morgun bréf til allra þingmanna þar sem farið er þess á leit að lögum um spilakassa verði breytt. Lög eru í gildi frá árinu 1994 sem heimila Háskóla Íslands, Rauða krossinum, Landsbjörgu og SÁÁ að reka söfnunarkassa og happdrættisvélar eins og það var orðað þá. 

Samtökin segja að spilakassar nútímans eigi ekkert skylt við slík sakleysisleg fyrirbæri.

„Þau gefa ekki til kynna að um sé að ræða úthugsaða spilatækni, sem er sérstaklega þróuð til að notendur ánetjist „leikjunum“ sem spilakassarnir bjóða upp á, enda voru spilakassar á þeim tíma mun sakleysislegri tæki en þeir nú eru. Tækin og leikirnir hafa þróast og verða sífellt meira ávanabindandi. Framleiðendur hafa enda viðurkennt að þeir séu hannaðir til að notandi verji meiri tíma og hærri upphæðum en hann ætlaði sér.“ segir í bréfinu.

Raunveruleikinn ekki í samræmi við það sem lagt var upp með

Þar segir jafnframt að traust hafi ríkt í þjóðfélaginu í garð þeirra sem reka kassana. Með því að taka í notkun þróaðri tækni, án þess að fá fyrir því sérstök leyi hafi þau brugðist því trausti. Lítil þekking hafi verið á spilafíkn á þeim tíma sem lögin voru samþykkt. Vilji löggjafans á sínum tíma hafi ekki verið að heimila starfsemi spilakassa í þeirri mynd sem þeir eru í dag.

„Þá voru eingöngu í boði örfáir ólöglegir spilaklúbbar, sem fáir höfðu aðgang að og lítið var um spilakassa. Það var ekki fyrr en með setningu laganna árið 1994 að verulega tók að fjölga í hópi spilafíkla á Íslandi. Nýliðunin á sér að mestu leyti upptök í spilakössunum. Á Íslandi er ekkert opinbert eftirlit með rekstri spilakassa, þrátt fyrir að kveðið sé á um það í lögum og reglugerðum. Með eftirlitsleysi sínu hafa stjórnvöld brugðist þeim stóra hópi fólks sem ánetjast hefur spilakössum. Í 26 ár hefur þessi starfsemi fengið að viðgangast í skjóli trausts til þeirra samtaka og stofnunar sem fara með leyfi til reksturs spilakassa. Í 26 ár hefur lífi og velferð einstaklinga verið fórnað undir því yfirskyni að verið sé að draga úr útgjöldum hins opinbera, til þess að standa straum af rekstrarkostnaði mannúðarsamtaka og til uppbyggingar á æðstu menntastofnun okkar Íslendinga.“ segir í bréfinu.

Ekki hægt að segja að framlögin séu frjáls

Þá segja samtökin að hagsmunum spilafíkla hafi verið fórnað til að afla tekna fyrir samtök sem hafa það hlutverk að vinna í þágu almannaheillar og mannúðar. 

„Stjórnendur samtakanna sem notið hafa fjárhagslegs ávinnings af rekstri spilakassa fjalla gjarnan um tekjur sínar af þeim sem „frjáls framlög.“ Ekkert er meira fjarri lagi. Nær væri að tala um misnotkun samtakanna á þeim sem haldnir eru spilafíkn og að á þeim sé níðst. Nútímaspilakassar eru svo ávanabindandi að talað er um þá sem rafrænt heróín. Tekjur af starfsemi spilakassa eiga ekkert skylt við frjáls framlög. Rekstrarumhverfi spilakassa einkennist af einangrun, dimmum og huldum sölum og skúmaskotum. Hönnun spilaumhverfisins er lýsandi fyrir að verið er að fela ógæfuna sem spilakassarnir valda.“ segir í bréfinu.

Í bréfinu til þingmanna er farið fram á að Alþingi taki upp hanskan fyrir þá sem glíma við spilafíkn og afturkalli leyfi til reksturs spilakassa.