Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sóttvarnalæknir endurskoðar tillögur að tilslökunum

Mynd: RÚV / RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skilaði heilbrigðisráðherra á miðvikudag minnisblaði með tillögum um áframhaldandi sóttvarnaaðgerðir. Í þeim fólust hægfara tilslakanir á ýmsum sviðum. Þórólfur hefur beðið ráðherra með að bíða með aðgerðir og hyggst endurskoða sínar tillögur. Þetta er vegna fjölgunar kórónuveirusmita. Hann biðlar til fólks að forðast alla hópamyndun. Smit síðustu daga séu rakin til veisluhalda og hópamyndunar innan sem utan fjölskyldna.

Þórólfur segir að staðan sé þannig nú að faraldurinn sé í vexti. „Við erum að sjá fjölgun á hverjum degi í nokkra daga og sérstaklega hjá þeim sem eru utan sóttkvíar. Ef þetta heldur svona áfram þá eru vísbendingar um að við séum hreinlega að fara í veldisvöxt með þetta og þá getur þetta aukist mjög hratt,“ segir Þórólfur.

Núgildandi sóttvarnaaðgerðir falla úr gildi 2. desember. Þórólfur skilaði minnisblaði sínu á miðvikudag.

Þarftu að endurskoða þær?

„Já. Enda er endurskoðunarákvæði í mínum tillögum enda þurfa þær að koma fram töluvert fyrir gildistöku nýrrar reglugerðar. Þá leit þetta allt miklu betur út. Fyrirvarinn minn í þeim tillögum var að ég gæti þurft að endurskoða þær tillögur ef að ástandið breyttist eitthvað núna á næstunni og ég held að það séum að horfa upp á það og ég hef rætt það við minn ráðherra,“ segir Þórólfur.

Þú hefur rætt það þegar við hana að það þurfi að endurskoða?

„Já, það þarf allavega að bíða aðeins með endanlegar tillögur og endanlega ákvörðun um hvað verður gert á meðan við erum að sjá hvaða stefnu þetta er að taka,“ segir Þórólfur.

Ekki hægt að spá tilslökunum fyrir jól

Það komi ljós um helgina hverjar nýju tillögurnar eru. 

Verður ekkert hægt að létta á takmörkunum?

„Ég vil kannski ekkert endilega tjá mig um það. Ég hef sagt að við þurfum að fara mjög varlega og það sagði ég í ljósi þess að hlutirnir voru að stefna í góða átt. Þannig ég held að við þurfum að fara enn varlegar núna þegar við sjáum að þetta er að fara í öfuga átt. Við þurfum að fara mjög, mjög varlega ef það er þá pláss til að fara í einhverjar tilslakanir,“ segir Þórólfur. 

Er enn ráðrúm til að rétta úr kútnum fyrir jól og sjá þá einhverjar tilslakanir fyrir jól?

„Ég held að það sé óvarlegt að hugsa margar vikur fram í tímann þegar hlutirnir breytast milli daga núna. Ég held að við verðum að sjá hvað gerist núna. Við erum að hugsa til næstu daga frekar en til næstu vikna. En ég held að þetta eigi að vera hvatning til allra. Það sem við erum að sjá núna er eitthvað sem gerðist fyrir viku síðan því það tekur allt að viku að sjá breytingar. Ég held að þetta eigi að vera hvatning til allra að varast hópamyndun. Við höfum séð að þessir einstaklingar sem eru að greinast núna, þetta tengist samkomuhaldi, veisluhöldum. Ekkert endilega miklu partístandi. Hvers konar hópamyndanir sem eru, innan sem utan fjölskyldna eru greinilega áhættuþáttur í þessu. Það er það sem við erum að sjá. Þetta er náttúrulega tími sem fólk er að hittast mikið, sérstaklega fjölskyldur. Við viljum biðla til fólks að fara mjög varlega og varast eins og hægt er slíkar hópamyndanir til þess að við lendum ekki verulega illa í því núna á næstu vikum,“ segir Þórólfur.