Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skólabyggingar líklega nýttar fyrir bólusetningu

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Skólabyggingar og íþróttahús verða líklega nýtt til þess að bólusetja marga á skömmum tíma þegar bóluefni við kórónuveirunni berst til landsins. Forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og borgarstjórinn í Reykjavík ræddu saman í gær um húsnæði fyrir bólusetningu. Starfsfólk heilsugæslunnar býr sig nú undir að geta með skömmum fyrirvara hafið bólusetningu.

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hefur rætt við Dag B. Eggertsson borgarstjóra um framkvæmd bólusetningar við kórónuveirunni sem veldur COVID-19. Þetta kom fram á Heilbrigðisþingi í morgun. Óskar segir að ef notað verði bóluefni sem er mjög viðkvæmt geti þurft að bólusetja mjög marga á stuttum tíma.

Bóluefnin þrjú sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og hafa komið vel út úr prófunum eru misjafnlega viðkvæm í flutningi. Þannig þarf til að mynda að geyma og flytja bóluefnið frá Pfizer í áttatíu stiga frosti. 

Undirbúningur í fullum gangi

Óskar segir í samtali við Fréttastofu RÚV að heilsugæslan undirbúi sig nú undir bólusetninguna. Hann hafi rætt við Dag í gær um húsnæði. Gera þurfi ráð fyrir mismunandi möguleikum við framkvæmd bólusetningar. 

Ef notað sé bóluefni sem er mjög viðkvæmt geti þurft að bólusetja mjög marga í einu. Þess vegna hafi verið leitað til borgarstjóra með húsnæði. Hann hafi tekið því mjög vel og heilsugæslan fái leyfi til að nýta skólabyggingar. 

Óskar segir vonir standa til að Lyfjastofnun Evrópu ljúki afgreiðslu umsókna lyfjaframleiðendanna þriggja. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins undirbúi núna þannig verklag að unnt sé að bregðast við og bólusetja með stuttum fyrirvara. 

Þarf meiri varkárni en í flensubólusetningu

„Við þurfum að hafa mismunandi sjónarhorn eftir því hvort við fáum marga skammta í einu eða hvort við fáum fáa skammta. Og hvernig við vinnum því þetta er svolítið öðru vísi þegar maður er að bólusetja í fyrsta skipti með bóluefni, þá þarf að hafa meiri varkárni og öðru vísi skipulag heldur en í hefðbundnum bólusetningum,“ segir Óskar.

Undirbúningur fyrir bólusetningu sé í fullum gangi. Hann hafi rætt við borgarstjóra í síma í gær um möguleikann á að fá húsnæði og fengið góðar undirtektir. Einnig verði rætt við fleiri sveitarfélög um lán á húsnæði eins og til að mynda skólabyggingum og íþróttahúsum.

„Stundum þarf að blanda bóluefni, finna blöndunarstað. Svo þarf að fylgjast með fólkinu eftir bólusetningu þegar um er að ræða svona nýjar bólusetningar. Síðan þurfum við að bólusetja eftir ákveðnum hraða. Það þarf að vera nóg af bílastæðum fyrir utan þannig að það er ýmislegt sem þarf að huga að,“ segir Óskar.

Allt starfsfólk bólusetur ef þarf

Hann segir að flóknast væri að bólusetja með bóluefni sem þarf að geyma í áttatíu stiga frosti eins og bóluefnið frá Pfizer. Þá þyrfti að bólusetja marga í einu.

„Ef við fáum mjög marga skammta þá vænti ég þess að við munum bara öll fara í þetta, öll sem erum fær um að bólusetja og fylgjast með fólki og sinnum beinni sjúklingavinnu. Þá verðum við nánast öll bara í þessu,“ segir Óskar.

Það sé hins vegar viðbúið að allt bóluefnið komi ekki á einu bretti.

„Þetta er samfélagslega mikilvægt verkefni þannig að það er mjög mikilvægt að við klárum þetta hratt og vel um leið og tækifæri gefst,“ segir Óskar.