Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Samningar flugvirkja fara í gerðardóm verði ekki samið

Mynd með færslu
 Mynd: Landhelgisgæslan - Aðsend mynd
Gerðardómi verður falið að ákveða kaup og kjör flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hafi samningar ekki tekist fyrir 4. janúar næstkomandi. Einnig verður gerðardómi ætlað að taka til meðferðar útfærslu á tengingu kjarasamnings flugvirkja við aðrar sambærilegar starfsstéttir á almennum vinnumarkaði.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Hún tilkynnti fyrr í morgun að ríkisstjórnin hefði ákveðið að setja lög á verkfallsaðgerðir flugvirkjanna.

Í yfirlýsingunni segir að verkfall flugvirkja hjá Gæslunni hafi stefnt heilbrigðis- og öryggisþjónustu fyrir almenning í mikla tvísýnu. „Staðan er óviðunandi og ég tel ekki rétt að ein stétt hjá Landhelgisgæslunni geti haft þessi gífurlegu áhrif á öryggismál þjóðarinnar, einkum og sér í lagi þegar haft er í huga að öðrum mikilvægum starfsmönnum stofnunarinnar er óheimilt að fara í verkfall með vísan til almannahagsmuna,“ segir í færslu ráðherra.