Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Myndskeiðinu að þakka að Michel sé ekki í fangelsi

27.11.2020 - 19:48
Fjórir franskir lögreglumenn voru leystir frá störfum í gærkvöld eftir að myndbandi var dreift um samfélagsmiðla þar sem þeir sjást berja svartan mann illa í París. Þetta gerist á sama tíma og frönsk stjórnvöld reyna að fá samþykkt frumvarp sem setur skorður við myndbirtingum af lögreglu við störf.

Atvikið átti sér stað um helgina í hljóðveri sem fórnarlambið - Michel Zecler - vinnur í. Hann vakti upphaflega athygli lögreglu þar sem hann var ekki með grímu, eins og öllum er skylt samkvæmt sóttvarnareglum. Hann fór þá inn í hljóðverið og lögreglan elti. Myndbandsupptaka úr öryggismyndavél sýnir að fyrst var honum haldið. Síðan láta lögreglumennirnir höggin dynja ítrekað á honum. Aðrir starfsmenn hljóðversins blanda sér síðan í málið og til frekari átaka kemur. Þá beitir lögreglan táragasi til að þvinga alla í hljóðverinu til að koma sér út.

Zecler ætlar að leita réttar síns. „Um leið og ég sé lögreglubíl og það jafnvel þó ekkert sé í gangi þá hugsa ég mig um - jafnvel þó að það sé mikilvægt að setja ekki alla undir sama hatt. Það réðust þrír menn á mig sem misbeittu valdi sínu,“ sagði Michel Zecler.

Hafida El Ali lögmaður hans gagnrýnir lögregluna harðlega. „Þeir handtóku skjólstæðing minn og sökuðu hann um ofbeldi gegn opinberum starfsmönnum. Það er grafalvarlegt mál. Staðreyndin er að hefðum við ekki þetta myndskeið þá væri skjólstæðingur minn kannski í fangelsi, sakaður um alvarleg brot.“

Gerald Darmanin innanríkisráðherra Frakklands tilkynnti að hann hefði beðið lögregluna í París um að leysa lögreglumennina frá störfum. Lögregluembættið hafði þegar verið gagnrýnt fyrir framgöngu sína þegar flóttamannabúðir í París voru leystar upp og hefur þetta atvik aukið þrýsting á að skipta um stjórnendur þar. 

Talsmaður Emmanuels Macron forseta segir að honum sé brugðið vegna atviksins. Ríkisstjórn hans reynir nú að koma frumvarpi í gegnum efri deild þingsins sem takmarkar verulega rétt fjölmiðla til að birta myndir af lögreglumönnum þegar andlit þeirra sjást. Gagnrýnendur segja að þetta hamli fjölmiðlum og almenningi frá því að segja frá mögulegri misbeitingu af hálfu lögreglu. Boðað hefur verið til mótmæla vegna þessa frumvarps í París á morgun.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV