Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mikilvægt að feður taki meira en þrjá mánuði í orlof

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra aukast um tíu milljarða króna á fimm ára tímabili, frá 2017 til 2022. Þetta segir Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra. Hann segir að gagnrýni á nýtt frumvarp um fæðingarorlof hafi verið mætt.

Fæðingarorlof hefur verið níu mánuðir sem skiptast þannig að þrír eru eingöngu fyrir móður, þrír eingöngu fyrir föður og þremur geta þau skipt á milli sín. Ásmundur Einar segir að reynslan sýni að feður taki aðeins þrjá mánuði í orlof. Hann hefur lagt fram frumvarp sem felur í sér að annað foreldrið getur ekki tekið meira en sjö mánuði, af þeim tólf sem eru til skiptanna, í fæðingarorlof. 

Rætt var við ráðherrann í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Ásmundur Einar segir að tuttugu ár séu liðin frá því fyrst var mælt fyrir frumvarpi um fæðingarorlof. Þetta hafi þótt tímamótalög þar sem fæðingarorlof hafi verið eyrnamerkt föður. 

„Það hefur sýnt sig að feður taka ekki nema þessa þrjá mánuði sem eru bundnir við þá,“ segir Ásmundur Einar. Rannsóknir sýni hins vegar að þeir feður sem taka lengra fæðingarorlof séu í betra sambandi við börn sín og taki meiri þátt í uppeldi þeirra. Afar mikilvægt sé að báðir foreldrar myndi tengsl við börn sín á fyrstu mánuðum þeirra. 

Núverandi ríkisstjórn hafi ákveðið að í ár yrði lokið við endurreisn fæðingarorlofskerfisins. Það feli í sér að greiðslur verði hækkaðar og orlofið lengt um þrjá mánuði. „Þetta er tíu milljarða endurreisn. Frá 2017 til 2022 gerum við ráð fyrir því að það fjármagn sem fari um Fæðingarorlofssjóð til fjölskyldna í landinu vaxi úr tíu milljörðum í 20 milljarða,“ segir Ásmundur Einar.  

Rúmlega 250 umsagnir bárust um frumvarpið í Samráðsgátt stjórnvalda. 
Töluvert hefur verið gagnrýnt að minni sveigjanleiki sé í töku fæðingarorlofs í nýja frumvarpinu. 

Ásmundur Einar segir að komið hafi verið til móts við þetta þegar einstæðir foreldrar eiga í hlut eða þegar annað foreldrið hefur ekki rétt á orlofi. Miklu skipti að feður taki orlof.

Þá hafi verið litið til landsbyggðarinnar og veita eigi styrki þeim sem þurfa að dveljast fjarri heimili vegna fæðingar.