Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Lögreglumenn í París settir af fyrir ofbeldi og rasisma

27.11.2020 - 05:36
Music producer identified only by his first name, Michel, answers to media, before going to the Inspectorate General of the National Police, known by its French acronym IGPN, in Paris, Thursday, Nov. 26, 2020. French Interior Minister Gerald Darmanin ordered several Paris police officers suspended after the publication of videos showing them beating up a Black man and using tear gas against him with no apparent reason. (AP Photo/Thibault Camus)
Upptökustjórinn og tónlistarframleiðandinn Michel svarar spurningum fréttamanna framan við höfuðstöðvar rannsóknarlögreglunnar í París Mynd: AP
Þremur frönskum lögreglumönnum var vikið frá störfum í gær eftir að myndskeiði var dreift á veffréttamiðlinum Loopsider, þar sem þeir sjást ganga í skrokk á tónlistarmanni og upptökustjóra í hljóðveri sínu í Parísarborg af miklum hrottaskap. Þeir sparka margoft í manninn og láta höggin dynja á honum, jafnt með hnefum sem kylfum. Maðurinn, blökkumaður sem einungis hefur verið nafngreindur sem Michel, var upphaflega stöðvaður fyrir þá sök að vera ekki með grímu.

Kyndir undir ólgu vegna rasisma innan lögreglunnar

Barsmíðarnar áttu sér stað á laugardagskvöld og birting upptökunnar í gær eykur enn á reiði í garð lögreglu, sem sökuð var um að beita óhóflegu valdi og ofbeldi þegar hún reif niður og rýmdi sjálfsprottnar flóttamannabúðir í borginni á mánudag. Þolendur lögregluofbeldisins voru í báðum tilvikum svartir.

Fótboltastjarnan Kylian Mbappe, sem einnig er blökkumaður, fordæmdi árásina á Michel og fékk félaga sína í franska landsliðinu til liðs við sig í þeirri fordæmingu. „Óbærilegt myndskeið, óbærilegt ofbeldi. Segið nei við rasisma,“ skrifaði hann á Twitter undir mynd af blóðugu andliti upptökustjórans Michel. Sá hefur greint frá því að lögreglumennirnir hafi ausið yfir hann kynþáttaníði á meðan þeir misþyrmdu honum.

Kærum gegn Michel vísað frá en lögreglumennirnir kærðir í staðinn

Michel var handtekinn og kærður fyrir ofbeldi og mótspyrnu við handtöku. Saksóknarar vísuðu kærunum frá og hófu þess í stað rannsókn á hendur lögreglumönnunum þremur. Þessi nýjustu ofbeldisverk Parísarlögreglunnar torvelda enn afar umdeild áform stjórnvalda um að banna birtingu myndskeiða þar sem andlit lögreglumanna eru sjáanleg.