Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Lög á verkfall rædd á Alþingi

27.11.2020 - 17:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lagasetning á verkfall flugvirkja Landhelgisgæslunnar var til umræðu á Alþingi í dag. Þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna gagnrýndu dómsmálaráðherra og ríkisstjórnina fyrir lagasetninguna og sögðu að bregðast hafi þurft við stöðunni fyrr.

Fyrsta umræða hófst á fjórða tímanum og mælti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra fyrir frumvarpinu. Umræðunni lok á sjötta tímanum og gengur málið nú til mennta og allsherjarnefndar Alþingiss. Önnur umræða á að hefjast klukkan korter í sjö í kvöld.

„Sáttatilraunir í málinu hafa engan árangur borið og engin lausn er í sjónmáli eftir að flugvirkjar höfnuðu sáttatillögu ríkissáttasemjara í gær. Brýnt er að bregðast við til að binda enda á það neyðarástand sem upp er komið. Kjaradeilan varðar almannahagsmuni og almannaöryggi. Í frumvarpinu er kveðið á um friðarskyldu milli deiluaðila og bann við vinnustöðvun, verkfalli eða öðrum aðgerðum sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lögin kveða á um frá því að frumvarpið tekur gildi. Lögin kom þó ekki í veg fyrir aðilar geti gert með sér kjarasamning án aðkomu gerðardóms,“ sagði Áslaug Arna.

Takist það ekki verður gerðardómur skipaður í byrjun næsta árs og er honum ætlað að skila tillögum sínum eigi síðar en 17. febrúar, hafi ekki verið gerður kjarasamningur fyrir þann tíma. 

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir þingmaður Viðreisnar sagði að sú staða sem nú er uppi varðandi óöryggi á sjó og á landi þegar engin þyrla er tiltæk sé á pólitíska ábyrgð dómsmálaráðherra.

„Það er pólitísk ábyrgð dómsmálaráðherra að við erum hér stödd í dag að slökkva þennan eld sem hér logar,“ segir Þorbjörg Sigríður. Þá sagði hún það alvarlegt að ráðherra hafi ekki haft nokkurt samband við Flugvirkjafélag Íslands áður en lagasetningin var boðuð.

Áslaug sagðist hafa fylgst með í gegnum samninganefnd ríkisins. Það sé  ekki í hennar verkahring sem ráðherra að stíga inn í kjaraviðræður með beinum hætti.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir sagði að viðhald og starfskilyrði Landhelgisgæslunnar væri ekki ofarlega hjá ríkisstjórninni og rifjaði upp leigu á þyrlum í stað þess að kaupa þær á sínum tíma.

„Við vitum að viðhaldsþörfin á þyrlu gæslunnar er rík, sérstaklega gagnvart nýjum þyrlum gæslunnar sem ráðuneytið ákvað að leigja á afsláttarprís í stað þess að kaupa betri þyrlur sem mögulega væru ekki búin að koma okkur í þessa stöðu á þessum tímapunkti.“ sagði Þórhildur Sunna.

Áslaug sagði að það hafi verið tekin ákvörðun um að fresta fyrirhuguðum kaupum en þær sem séu í leigu séu ekki síðri.